Together er námskeið í samfélagslegri hönnun (e. social design) sem kennt hefur verið við hönnunar- og arkitektúrdeild Listaháskóla Íslands undanfarin ár.

Nýverið lauk námskeiðinu með því að sjö hópar kynntu verkefni sín fyrir áhugasömum í formi fyrirlestra og sýningar í Þverholti. Verkefnin vöktu verðskuldaðan áhuga þeirra sem hlýddu á en þau má skoða á heimasíðu Together.

Í þetta sinn var þema námskeiðisins ábyrg ferðamennska en fjöldi ferðamanna sem sækir Ísland heim eykst með hverju árinu og þessi þróun hefur í för með sér stórvægileg áhrif á samfélagið.

Einn hópur tókst á við hið stóra vandamál sem öryggi ferðamanna á Íslandi er með verkinu A Monument of Sound. Þau hönnuðu strúktúr fyrir Reynisfjöru sem er í senn minnisvarði og risavaxinn viðvörunarlúður. Hópurinn notaði arkitektúr, hljóð og upplifun en hugmyndin er að fólk sem heimsækir Reynisfjöru gangi í gegn um göng sem hönnuð eru til að magna upp hljóðið sem öldurnar mynda þegar þær berja á fjörunni. Þannig vill hópurinn fá fólk til að átta sig á krafti náttúrunnar og hættunni án þess að finnast það óvelkomið.

Annar hópur skoðaði hvernig hægt væri að tengja ferðamenn og íbúa landsins betur og settu fram tillögu sem þau kalla The Traveling Guestbook. Ferðamönnum býðst að skrifa póstkort sem verkefnið sendir síðan heim til íslendinga sem valdir eru af handahófi. Prófun hópsins hafði heppnast nokkuð vel en ferðamenn voru jákvæðir og skrifuðu hinar ýmsu kveðjur á kortin sem voru til sýnis á kynningunni.

Í The Yellow One eru ferðamenn hvattir til að skoða aðra hluta höfuðborgarsvæðisins en miðbæ Reykjavíkur. Hópurinn bjó til kort og smáforrit í kring um leið 1 hjá Strætó BS sem fer um Kópavog, Garðabæ og Hafnarfjörð. 

Í námskeiðinu unnu hópar sem samanstóðu af fyrsta árs nemum í MA í hönnun og annars árs BA nemendum í arkitektúr, fatahönnun, vöruhönnun og grafískri hönnun að hugmynd sinni yfir fjórar vikur.

*Myndin sem fylgir fréttinni er frá verkefninu House of Grace sem skoðaði almenningssalerni borgarinnar.