Automatic translation by Google Translate.We cannot guarantee that it is accurate.

Skoða vefinn á Íslensku

Thora Karlsdottir

Thora Karlsdottir útskrifast með meistaragráðu og kennsluréttindi frá listkennsludeild vorið 2025.

 

Dæmdu mig, ég geng á glerinu

Heimildarkvikmynd sem lýsir reynslu móður drengs sem þróar með sér fíknisjúkdóm

 

„Dæmdu mig, ég geng á glerinu“. Myndin er sjálfs-etnógrafía (e. autoenography) þar sem listræna ferlið snýst um að miðla eigin upplifun og lífsreynslu sem móðir. Markmiðið með gerð þessarar heimildarkvikmyndar er að persónuleg reynsla geti nýst sem fræðsluefni, námsgagn, kennsluefni og forvarnarfræðsla fyrir ungmenni og aðra.

Heimildarkvikmyndin stendur sem sjálfstætt listaverk og er unnin upp úr persónulegu gagnasafni (e. archives) höfundar, meðal annars úr gömlum ljósmyndum, myndskeiðum af gömlum VHS og 8mm video-spólum, textum, ljóðum, teikningum úr skissubókum, dagbókarfærslum og öðru úr einkasafni sem hefur verið komið í stafrænt form.

Umfjöllunarefnið er fíknisjúkdómur og lífshlaup sonar míns síðastliðin 20 ár og baráttu hans við sjúkdóminn og lýsir myndin minni reynslu sem móðir drengs sem þróar með sér fíknisjúkdóm frá 15 ára aldri. Atburðarásin tekur yfir líf hans og að miklu leyti líf okkar allra í kringum hann. Myndin veitir innsýn inn í ferðalag móður, myndlistamanns, kennara og manneskju sem rifjar upp erfiðar minningar um alvarlegra viðburði og erfiðar ákvarðanir.

Í myndinni er reynslan spegluð við samtímann, bæði í nemendum sem ég kenni á unglingastigi í grunnskóla sem og samfélaginu okkar. Alvarlegum afleiðingum af fíknisjúkdómi er lýst og þar sem þetta er sönn saga er það einlæg von mín að það auki trúverðugleika og auðveldi áhorfendum að setja sig í spor þess sem segir frá. Sannsöguleg atburðarás sem enginn gæti ímyndað sér að eiga eftir að upplifa sjálfur eða með sinni fjölskyldu. En fíknisjúkdómur spyr hvorki um stétt né stöðu og getur í reynd hent hvern sem er. Það er val að byrja að fikta við hugbreytandi efni, hvort sem það er áfengi eða eitthvað annað. Það eru ekki allir sem enda þó með fíknisjúkdóm en það er enginn sem veit hvar fikt endar þegar það byrjar. Myndin fer yfir blákaldan veruleika barns sem ánetjast fíkniefnum, staðnar í þroska sem fullorðinn einstaklingur og nær ekki bata, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir í meðferð.

Verkið er persónuleg berskjöldun og er unnið með samþykki sonar míns og annarra fjölskyldumeðlima.

 

Leiðbeinendur: Lee Lorenzo Lynch og Hye Joung Park
30 ECTS MA listkennslufræði
2025