Automatic translation by Google Translate.We cannot guarantee that it is accurate.
Skoða vefinn á Íslensku
29.11.25
Seltjarnarneskirkja
Flytjendur
Sinfóníuhljómsveit áhugamanna
Júlíus Máni Sigurðsson
BA Hljóðfæratónsmíðar
Júlíus Máni Sigurðsson fæddist í Reykjavík árið 2001. Hann byrjaði að læra á klarínett í Skólahljómsveit Vesturbæjar og Miðbæjar 8 ára gamall. Seinna lærði hann í Tónskóla Sigursveins, þar sem kennarar hans voru m.a. Grímur Helgason og Guðni Franzson. Árið 2018 gekk hann í raðir Kór Menntaskólans við Hamrahlíð, sem kveikti áhugann á kórtónlist, og hefur hann æ síðan verið í kór, lengst af í Kór Hallgrímskirkju og Kammerkórnum Huldi.
Júlíus hóf nám í hljóðfæratónsmíðum við Listaháskóla Íslands árið 2022. Í Listaháskólanum hefur Júlíus lært tónsmíðar undir handleiðslu Hildigunnar Rúnarsdóttur, og Hróðmars Inga Sigurbjörnssonar. Einnig hefur hann lagt stund á kórstjórn, verið leiðbeinandi og útsetjari í Upptaktinum og tekið þátt í Sumartónleikum í Skálholti.
Tónsmíðaferillinn hófst í Kammerkórnum Huldi, undir stjórn Hreiðars Inga Þorsteinssonar, sem leggur áherslu á nýjar tónsmíðar fyrir kór. Kórinn flutti verk eftir Júlíus, og fleiri meðlimi kórsins, á evrópskri ungmennakórahátíð í Basel sumarið 2025. Vorið 2026 mun Huldur gefa út hljómplötu, sem meðal annars mun innihalda tónsmíðar Júlíusar.
Brak er lokaverkefni Júlíusar úr Listaháskólanum, samið á nokkurra mánaða tímabili á árinu 2025. Í verkinu má heyra áhrif úr hinum ýmsu áttum, t.d. Jóni Nordal, Igor Stravinsky, Jóni Leifs og Charles Koechlin. Verkinu má lýsa sem sléttum vatnsfleti, sem truflaður er af dropa sem brýtur vatnið og gárar það, þar til vatnið kyrrist aftur.