Automatic translation by Google Translate.We cannot guarantee that it is accurate.

Skoða vefinn á Íslensku

Adda Ingólfs Heiðrúnardóttir

05.05.25
Salurinn Kópavogi


Flytjendur
Stijn Brinkman og Caput Ensemble

Adda Ingólfs Heiðrúnardóttir
MA Tónsmíðar


Adda Ingólfs Heiðrúnardóttir er tón- og söngvaskáld. Hún nam sónólógíska raftónlist við Konunglega tónlistarháskólann í Haag og heimspeki og kynjafræði á Íslandi, í Hollandi og Búdapest.

Í tónsmíðum sínum rannsakar hún tengsl og tengslarof við íslenska tónlistarsögu, einkum kvæðalagahefðina sem blómstraði í torfbæjarmenningunni. Segja má að hún komi sér fyrir innan í kvæðalögum og -ljóðum formæðra og forfeðra, beini sjónum að einkennandi smáatriðum, þenji þau út og umbreyti þannig frumefninu

Moldarmáttur



Heiti verksins er fengið úr kvæðinu Krókárgerði eftir Ólínu Jónasdóttur skáldkonu. Krókárgerði er eyðibýli í Skagafirði en Ólína þekkti síðustu ábúendur þess. Kvæðið er einskonar minningarorð um torfbæjarmenninguna og flókin tengsl skáldsins við hana. Um afturhaldssemina en einnig þrána eftir kveðskap og söng. Skáldkonan var á barnsaldri þegar hún kom eitt sinn heim með nýort ljóð og var lamin fyrir. Hún tók það ráð upp frá því að grafa ljóð sín í jörðu uppi í hlíðinni þar sem hún sat yfir ánum. 

Verk Öddu byggir á túlkun hennar og umskrift á kvæði Ólínu (sjá innlegg sem fylgir efnisskránni). Verkið er ferðalag ofan í jörðina, tilraun til þess að snerta á moldarmættinum. Segja má að sögumaðurinn komi sér fyrir ofan í moldinni (í hefðinni), skeri út rými, fari í vetrarhýði, drekki hljóðlega í sig næringu og bori sér síðan leið upp á yfirborðið þegar fer að vora. 

Tónefni verksins og rytmi er unnið upp úr upptöku af kvæðalagi sem Þórhallur Ástvaldsson kvað við Krókárgerði um 1960. Kvæðið er hringhend ferskeytla, sem þýðir að auk endaríms má finna innrím í hverri einustu línu (sjá fyrrnefnt innlegg). Hér fær einkum að njóta sín öldugangsleg hrynjandin sem myndast í kveðskap Þórhalls þegar hann hinkrar við þau atkvæði sem mynda innrím hringhendunnar.  

Verkið samanstendur af sjö stuttum köflum sem bera heitin: Eyðiró, Hugarkvíði, Vetrarhýði, Rústin geymir, Kraftur ól, Vakti þrá, Fjörið glæðist.