Automatic translation by Google Translate.We cannot guarantee that it is accurate.
Skoða vefinn á Íslensku
Nýsköpunarverðlaun forseta Íslands voru afhent við hátíðlega athöfn á Bessastöðum í gær þann 20. janúar 2026. Verðlaunin eru veitt þeim námsmönnum sem hafa unnið framúrskarandi starf við úrlausn verkefna sem styrkt voru af Nýsköpunarsjóði námsmanna árið 2025. Stjórn sjóðsins valdi sex öndvegisverkefni til tilnefningar en tvö þeirra eru unnin af nemendum Listaháskóla Íslands. Annað þeirra er rannsóknar- og nýsköpunarverkefnið Efnisheimar sem þeir Bjarki Þór Wíum Sveinsson og Gísli Hrafn Magnússon unnu en þeir eru nemendur við arkítektúrdeild LHÍ. Verkefnið TENGJA hlaut einnig tilnefningu en þar voru þau Janek Beau, Max Greiner, Katlu Taylor og Tumi Valdimarsson að verki en þau eru öll nemendur í meistaranámi við hönnunardeild LHÍ.
Rannsóknar- og nýsköpunarverkefnið Efnisheimar fjallar um byggingarefni á Íslandi í sögulegu, menningarlegu og vistfræðilegu samhengi. Verkefnið tekur á raunverulegum áskorunum byggingariðnaðarins, svo sem háu kolefnisspori, mikilli innflutningsþörf og rofnu sambandi við staðbundna efnishefð. Markmiðið er að færa þá þekkingu aftur inn í samtímann og opna nýjar leiðir til sjálfbærari og staðbundnari mannvirkjagerðar. Efnisheimar byggir á blandaðri aðferðafræði þar sem vettvangsferðir, viðtöl, vinnustofur og umhverfisgreiningar eru fléttuð saman við söguleg gögn og upplýsingar um efnistilraunir sem gerðar hafa verið hérlendis. Verkefnið skoðar ekki aðeins tækifærin, heldur dregur einnig skýrt fram þá þröskulda sem standa í vegi fyrir aukinni notkun íslenskra byggingarefna, hvort sem þeir liggja í regluverki, þekkingarskorti, innviðum eða viðteknum viðhorfum. Verkefnið unnu Bjarki Þór Wíum Sveinsson og Gísli Hrafn Magnússon nemendur í arkitektúr í LHÍ. Leiðbeinendur voru Anna Kristín Karlsdóttir hjá Lúdika arkitektar.
Nýsköpunarverkefnið Tengja byggir á nýtingu á bakvatni hitaveitu í almannaþágu.
Verkefnið varð til út frá þeirri hugmynd að hægt væri að endurheimta umfram jarðhita og umbreyta honum í auðlind fyrir nærsamfélagið. Verkefnið miðar að því að nýta orkuna sem fer til spillis og beina henni inn í almenningsrými með því að búa til einingar, upphitaða bekki sem bjóða fólki að setjast niður, hvílast og tengjast hvert öðru. Tengja vill vera stoppið á leiðinni, staðurinn sem gefur þér smá hvatningu til að fara í göngutúr – jafnvel samkomustaður, ef svo má að orði komast. Með því að umbreyta því sem áður var úrgangur í sameiginlega auðlind sýnir Tengja hvernig nýsköpun og umhverfisábyrgð geta farið saman. Niðurstaðan er framtíðarsýn um Reykjavík þar sem hlýjan finnst ekki aðeins innanhúss heldur einnig á götum og torgum borgarinnar, þar sem hún dregur fólk saman og lífgar upp á almenningsrými yfir köldustu mánuði ársins. Verkefnið var unnið af Janek Beau, Max Greiner, Katlu Taylor og Tuma Valdimarssyni nemum í Hönnun, umhverfi og áskoranir í LHÍ. Leiðbeinendur voru Heimir Tryggvason hjá Veitur og Jón Helgi Hólmgeirsson lektor í hönnunardeild LHÍ.
Við óskum nemendum innilega til hamingju með tilnefningarnar!