Automatic translation by Google Translate.We cannot guarantee that it is accurate.

Skoða vefinn á Íslensku

Opnun á sýningunni Allt innifalið

  • 22.maí 2025

Laugardaginn síðastliðinn opnaði Allt innifalið, útskriftarsýning nemenda í bakkalárnámi í arkitektúr, hönnun og myndlist á Listasafni Reykjavíkur. Sýningin er ein sú fjölsóttasta ár hvert og stendur að þessu sinni til 25. maí.  

Á sýningunni má sjá fjölbreytt útskriftarverk 73 tilvonandi arkitekta, hönnuða og myndlistarmanna. Á síðasta ári sóttu hátt í 8.000 gestir sýninguna og er ljóst að hún hefur fest sig í sessi og nýtur verðskulda athygli.  

Kristín Eysteinsdóttir rektor LHÍ og Ólöf Kristín Sigurðardóttir safnstjóri Listasafns Reykjavíkur ávörpuðu gesti við opnunina og hrósaði Ólöf hópnum sérstaklega fyrir metnað og vinnusemi. 

Kristín lýsti sýningunni sem fjölbreyttri og lifandi, „Hér er allt innifalið!” eins og hún komst sjálf að orði. 

„ Hér rannsökum við þjóðsögur, hugarheim fortíðarinnar, umbreytingar, málverkið sem viðfangsefni og stað breytinga, mörk milli raunheima og dagdrauma og hvernig við tengjumst tímanum.  

Við skoðum hið ómögulega, fáránlega og frumlega. Við gerum gjörninga og könnum hið viðkvæma andartak þegar ákvörðun er tekin, hér birtist pólitísk andstaða gagnvart stofnun sem tekur ekki afstöðu í heimsmálunum, stríð og þjóðarmorð á Gaza, hér er teiknað í rýmið, heimurinn smækkaður ofan í lítinn kassa,  skúlptúr mótaður sem vettvangur tilfinninga, við könnum samtal á milli dýrategunda, mörkin á milli óþæginda og léttis, fjölskylduna, listamanninn sem sagnaritara, eltingaleik við hið dýrmæta, skrásetningu hversdagsleikans, efni sem breytist hægt og býtandi, tengsl líkamans og náttúrunnar og tengsl einstaklingsins við samfélagið.  

Við skoðum kynhlutverk, stöðu kvenna, jaðarsettra hópar, innflytjenda, menntunar, spillingar og valdakerfis.  

Við notum tækni til að víkka út mörk fagsins.   

Við notum hönnun sem gagnrýna aðferð til að taka þátt í umræðu samtímans.  

Við förum fjölbreyttar leiðir til að segja sögur.” 

Myndir: Eygló Gísladóttir 

Aðrar fréttir og greinar