Keðjubréf mánaðarins er komið á ferð og í þetta sinn fylgir því örviðtal við Dr. Ingimar Ólafsson Waage, deildarforseta listkennsludeildar.
Keðjubréfið snertir alla hópa innan Listaháskólans, nemendur og starfsfólk. Keðjubréfið gefur okkur tækifæri til að kynnast hvert öðru aðeins betur, eitt bréf í einu.
Hver veit… kannski ratar næsta keðjubréf einmitt til þín!
Nú hefur þú nýlokið doktorsvörn og getur formlega kallað þig Dr. Ingimar, finnur þú fyrir einhverri breytingu innra með þér?
Nei, engar breytingar. Ég er ennþá sami gamli mömmudrengurinn.
Ertu að hugsa þér meira nám í framtíðinni eða telst þú loksins vera fulllærður?
Ég hef komist að því að því meira sem maður lærir, því betur áttar maður sig á því hvað maður veit lítið. Þannig að ef ég læri meira, þá mun ég vita minna og minna. Það myndi þá enda með því að ég myndi bara alls ekki vita neitt um nokkurn skapaðan hlut. Að vera fulllærður er því hið sama og að vita ekkert. Það felst á vissan hátt mikið frelsi í því að vita ekkert; ignorans er jú bliss.
Hvað ætlar þú að gera við alla þessa visku?
Viska felur það í sér að vita að maður veit ekkert, og maður sem veit ekkert, hefur ekkert og getur þar af leiðandi ekki gert neitt… Þannig að ég ætla bara að slappa af.
Kærar þakkir Ingimar fyrir að leyfa okkur að kynnast þér örlítið betur.