Automatic translation by Google Translate.We cannot guarantee that it is accurate.

Skoða vefinn á Íslensku

Samhengi býður velkominn Björn Þór Jónsson föstudaginn 23. janúar kl. 12:15 í Dynjanda. Fyrirlestur Björns ber yfirskriftina Önnur hljóð en þú gætir óskað þér: óvæntar uppgötvanir með hermun á náttúrulegum þróunarferlum. 

 

Nánar um fyrirlesturinn:
Ef við lítum á stærstu gervigreindarlíkön dagsins sem drullupoll, þá er okkur boðið upp á að hræra í þeim polli til að sjá, og heyra, ný mynstur. Þannig er hægt að ná fram ýmsu áhugaverðu en það byggir allt á því sem er þegar í pollinum. Til að þróast áfram sem skapandi verur þurfum við eitthvað meira en sömu hræruna. Í heimi hljóða eru fjölmargir möguleikar og jafnframt áskoranir. Það er hægt að ná fram öllum mögulegum hljóðum með nútímatækni til hljóðgervingar (e. sound synthesis) en þau eru ekki öll jafn aðgengileg. Til að nýta tæknina þarf sérþekkingu, sem getur jöfnum höndum verið gefandi og takmarkandi: það er gaman að ná upp færni í ákveðnum aðferðum hljóðgervingar en það sem við náum að uppgötva takmarkast einnig við þá færni. Og þegar kemur að því að óska eftir afurðum frá gervigreindarlíkönum, þá takmarkar orðaforði okkar þann hljóðheim sem við náum að lýsa.

Tilkoma tölva kveikti fljótt áhuga á að nýta þær í að búa til nýstárleg hljóð, en einnig til að herma eftir því hvernig náttúran hefur fundið allar sínar fjölbreyttu lausnir; fyrst með því að hvetja ferlin að settu markmiði en nú í seinni tíð með því að hvetja til fjölbreyttra uppgötvana, fylgjandi þeirri innsýn að oft leiða við fyrstu sýn óspennandi uppgötvanir til uppgötvana sem breyta öllu.

Ef við horfum til þróunar lífsins, þá sjáum við gríðarlegan fjölbreytileika flókinna lífvera sem hafa náð að þróast án sjáanlegra markmiða, annarra en að lifa af við ólíkar aðstæður. Þetta á einnig við í menningarsögunni okkar: mannkynið hafði ekki sett það að markmiði að þróa óbeina hitun á matvælum, en náungi sem vann með radartækni tók eftir því að súkkulaðistykki bráðnaði í buxnavasanum, og í dag höfum við örbylgjuofna, sem við hefðum sennilega ekki ef við hefðum ýtt til hliðar öllum uppgötvunum sem ekki virtust líklegar til að færa okkur nær markmiði örbylgjuofnsins.

Hver eru ígildi örbylgjuofna tónlistar framtíðarinnar í formi nýstárlegra hljóða? Við náum líklega ekki að galdra þau upp úr polli fullum af hljóðum fortíðar, en þátttaka í þróunarferlum sem leita vítt og breitt í rými allra mögulegra hljóða kann að afhjúpa hljóð sem leiða sköpunarferli okkar inn á nýjar brautir.

Fylgjast má með framvindu verkefnis sem snýst um að koma á fót slíkum þróunarferlum gegnum vefsíðuna https://synth.is

Björn er hugbúnaðarsérfræðingur með þráhyggju fyrir hljóðum. Megnið af starfsferlinum hefur hann tekið þátt í fjölbreyttum verkefnum fyrir hið opinbera og einkaaðila, sem hafa þó engin tengst sköpun með hljóðum.

Í fríi frá slíkum verkefnum í meistaranámi í Kaupmannahöfn kynntist hann ýmsum sviðum gervigreindar og eitt heillaði meira en önnur, sem snýr að því að herma eftir því í tölvu hvernig náttúran uppgötvar allan sinn fjölbreytileika. Almennur áhugi á hljóðgervingu hefur leitt hann til rannsókna á nýtingu þessara aðferða til hljóðuppgötvana, sem hann hefur sinnt frekar í doktorsnámi við Oslóarháskóla undanfarin ár: https://www.uio.no/ritmo/english/people/postdoctoral-fellows/bthj/

Aðrir viðburðir

: ?>