Automatic translation by Google Translate.We cannot guarantee that it is accurate.
Skoða vefinn á Íslensku
Kveldúlfur Karl
Einkasýning í Naflanum
Opnun 2. október 17:00-19:00
—————
Frá því að ég var blautur á bakvið eyrun hafa ævintýri og goðsagnir átt mig. Ljósmyndun kom síðar og felldi allt úr jafnvægi. Það opnaði hvarmaljós mín á að hver hlutur sér, allt hefur sín augu, sitt sjónarhorn. Hugmyndin óx og reis sem grundvöllur. Hér stígur fram það hugarhof í raunveruleikann, þar með óumflýjanlegur sannleikur.
————————————————————————————————————–
Innra með okkur öllum lifir eldmóður sem er bældur niður í þágu samfélagsins hvert sinn sem við fáum tækifæri til að skara fram úr. Sárasjaldan er staldrað við og íhugað hvers þarf að gjalda svo hið efnislega geti hert tak sitt á sálu okkar og kæft hugann inni í kössum samfélagsins.
Hér veiði ég úr hafi jafnt sem landi þær týndu sálir sem áður lifðu meðal oss skoðanir, hættir og siðir, auk gjörða sem áður stýrðu heilu þjóðfélögum. Á meðal þess má finna gleymda drauma, langanir sem hurfu, ástríðu sem drukknaði í mikilvægari málum.
Í dag má ekki við þeirri sóun og því síður ástríðum skeytt vítt og breytt. Vilji minn er heimsfræðilegur og dembi ég mér í vitsmunarferðalag sem litar ekki innan línanna, fremur eru litirnir línurnar. Aðeins verður sýnt það sem við höfum fleygt frá okkur.
Krafturinn fæst við að sjá sannleikann. Ég vil svipta hulunni af því sem áður var, það sem við gáfum eftir. Öll sú orka, kraftur og hráu tilfinningar; barnslegt eðli. Alheimurinn sleppir ekki slíku frá sér og heldur fast í það sem engin annar vill. Í öðrum víddum eða á misbreiðum bylgjulengdum leynist heimur þar sem brot af eðli okkar, sálarkorn, hlutgerast í dauðum englum. Týndur hluti okkar sem hefur engan húsbónda.
Heimurinn sem ég sýni er fullur af dauðum englum sem ráfa um í leit að miðli. Þeir flytja sannleik sem bíður þess að einhver hlusti.
—————
Sýningin er partur af einkasýningaröð BA nemenda á þriðja ári í myndlist sem fara fram á tímabilinu 25. september – 27. nóvember 2025.
Einkasýningar nemenda er liður í námskeiðinu Vinnustofur prófessora í umsjón Sirru Sigrúnar Sigurðardóttur. Kennarar Hekla Dögg Jónsdóttir og Styrmir Örn Guðmundsson.
Nánari upplýsingar um einkasýningaröðina má finna HÉR.









