Automatic translation by Google Translate.We cannot guarantee that it is accurate.

Skoða vefinn á Íslensku

bakvið

Álfur Tumi
Einkasýning í Kubbnum
Opnun 9. október 17:00 – 19:00
—————

Efniviðurinn sem talar til mín; stál, flauel, krossviður, múrsteinar, blóm, leir og svampur eru efni sem gefa eftir, þola, muna og hafa áferð. Efni sem skapa hleðslu í rýminu. Ég er alltaf að leita að staðnum þar sem brothætt og sterkt geta lifað hlið við hlið – þar sem húmor og þyngd mætast, leikur og alvara og myrkur og ljós eiga samtal.

Verkin eru oft á mörkum þess að vera varnarveggir og viðkvæmt líkamsminni. Stálveggur á hjólum færir mörkin smám saman til. Klæði úr krossvið sem geymir viðkvæmni undir hörðu yfirborði. Lítið lag á milli múrsteina spilar rólegan tón. Brothættir leirskúlptúrar hvíla á stáli. Verkin vilja koma fram, leyfa sér að sjást, en fela sig samt bak við efnið.

Efni hefur eigið minni og að vinna með þau er samtal við líkama sem skilur meira en orð. Ég byggi upp, brýt niður, reyni aftur, hlusta, játast. Vinnubrögðin og ferlið segir mér oft eitthvað sem ég hafði ekki verið meðvitaður um eða skoðað nægilega vel áður. Ég er stöðugt á milli laga, á milli handverks og hugsunar og á milli þess að fela eða sýna. Mig langar að vita hvað býr að baki, hvaðan fólk er að koma og hvað gerir þau að þeim sem þau eru í dag. Ég trúi að listin sé staður þar sem efni og tilfinning verða eitt, þungt er mjúkt og viðkvæmt er sterkt.
—————

Sýningin er partur af einkasýningaröð BA nemenda á þriðja ári í myndlist sem fara fram á tímabilinu 25. september – 27. nóvember 2025.
Einkasýningar nemenda er liður í námskeiðinu Vinnustofur prófessora í umsjón Sirru Sigrúnar Sigurðardóttur. Kennarar Hekla Dögg Jónsdóttir og Styrmir Örn Guðmundsson.

Nánari upplýsingar um einkasýningaröðina má finna HÉR.