Hvað hvíslar mýslið - ræktun uppskera og niðurbrot í list og listkennslu

 
Í þessari rannsókn eru möguleikar myndlistar og listkennslu með hringrás ræktunar, uppskeru og niðurbrots að leiðarljósi kannaðir. Verkefnið er listrannsókn og byggir á eigin reynslu við að rækta, uppskera og brjóta niður skúlptúra úr plöntum, sveppum og trjám  meðan á rannsókninni stóð. Í henni voru skoðaðar ólíkar leiðir til að rækta lífplast og önnur þrívíð form úr ostrusveppamýsli, og skráðar niður hugrænar og skynrænar upplifanir af ferlinu til þess að þróa eigin listiðkun og finna vísa að listkennslu með þessari nálgun.
 
Í rannsókninni vann ég á vinnustofunni minni og í nærumhverfi, hélt vinnustofu fyrir grunn-, leik- og framhaldsskólakennara í Grasagarði Reykjavíkur og hélt sýningu í Gunnfríðarstofu Gerðubergs á útskriftarviðburði Listkennsludeildar Listaháskólans. Í fræðihluta var stuðst við kenningar um grenndarnám, skrif frumbyggjafræðinga og umhverfissálfræðinga um tengsl menningar og náttúru. Einnig rýndi ég í listaverk, heimspeki og menntaheimspeki sem snýr að breytingum og hverfulleika, auk viðtala við tvo líffræðinga, grunnskólakennara og umhverfisverkfræðing um málefni tengd verkefninu.
 
Í rannsókninni skapaði ræktunin á ostrusveppamýslinu ákveðinn ramma fyrir sköpunarferli sem hægt var að yfirfæra yfir á önnur hráefni sem finna má í skólum og í grennd við þá, en list og listkennsla sem gerir hringrásarkerfi náttúrunnar að útgangspunkti fellur vel að þverfaglegu skólastarfi, listkennslu í samræmi við samtímalist samfélagins og menntun til sjálfbærni þar sem viðfangsefni, aðferðir og öflun hráefnis eru krefjandi og spennandi fyrir nemendur og jákvæð fyrir umhverfi þeirra.
 

 

Vala Sigþrúðar Jónsdóttir
Leiðbeinendur: Guðbjörg R. Jóhannesdóttir og Gunndís Ýr Finnbogadóttir
30 ects
valavala93 [at] gmail.com
2022