Automatic translation by Google Translate.We cannot guarantee that it is accurate.
Skoða vefinn á Íslensku
Kristín Eysteinsdóttir, rektor LHÍ bauð í dag nýnema velkomna og hvatti þau til að nálgast námið opnum huga.
„Þið eruð að hefja ótrúlegt ferðalag og ég vil hvetja ykkur til að vera opin fyrir öllu sem á vegi ykkar verður næstu daga og vikur. Leyfið ykkur að upplifa og njóta“.
Kristín lagði áherslu á mikilvægi þess að læra af mistökum. „Umfaðmið tilraunir og umfaðmið mistök, því þar munið þið vaxa.“ Kristín hvatti nemendur enn fremur til að sjá hindranir sem tækifæri, rækta með sér sveigjanleika, þrautseigju og samkennd. „Leitið innblásturs og hvatningar alls staðar, í samræðum – við jafnaldra, leiðbeinendur og heiminn í kringum ykkur“.
Ávarp Kristínar Eysteinsdóttur til nýnema má lesa í heild sinni hér fyrir neðan.
Þóra Einarsdóttir, aðstoðarrektor náms og kennslu kynnti fyrir nemendum fagstjóra, deildarforseta ásamt dagskrá nýnemavikunnar og Haukur Björnsson fór yfir húsnæði, aðgengi og önnur mál.
Að venju lauk skólasetningunni með ræðu frá Hollnema, sem að þessu sinni var Gréta Salóme Stefánsdóttir, tónlistarmaður og nýráðinn dósent við Tónlistardeild LHÍ.
Í ræðu sinni veitt Gréta Salóme nemendum innblástur og ræddi um að vera Heildrænn listamaður eða „The Holistic Artist“. Hún lagði áherslu á að það væri forréttindi að eyða árum í að læra og helga sig að listinni og að það væri mikilvægt að nýta þennan tíma til að læra nýja hluti og finna sínar eigin leiðir að listsköpun.






Ávarp Kristínar Eysteinsdóttur, rektors LHÍ
Góðir gestir, kæru nýnemar!
Það er einstaklega gleðilegt að fá að vera með ykkur hér í dag á þessum tímamótum sem marka upphaf náms ykkar við Listaháskólann.
Til ykkar allra, sem stigu yfir þröskuldinn í morgun, fullir af draumum og kannski smá kvíða, vil ég fyrst og fremst segja – velkomin!
Þið eruð að hefja ótrúlegt ferðalag og ég vil hvetja ykkur til að vera opin fyrir öllu sem á vegi ykkar verður næstu daga og vikur. Leyfið ykkur að upplifa og njóta.
Listaháskólinn er samfélag þar sem þið fá rými og tíma til að rækta ykkar hæfileika og sérstöðu undir handleiðslu framúrskarandi fagfólks, staður þar sem þið getið prófað ykkur áfram, gert tilraunir, spurt spurninga, leitað, fundið og framkallast.
Markmið okkar sem hér störfum snýst um ykkur kæru nemendur: að virkja og þjálfa hæfni ykkar, hugvit og þekkingu með áherslu á nýsköpun, sjálfstæði, framsækni og fagmennsku.
Ég hvet ykkur til að njóta þessa ferðalags sem framundan er. Leyfið ykkur að leita, því leitin sjálf er einn mikilvægasti þáttur sköpunarinnar. Leitið að ósögðum sögum, óvæntum sjónarhornum, veltið við steinum og varpið ljósi á hið óvænta. Leitið að mennskunni, fegurðinni, grimmdinni og gæskunni. Verið forvitin um allt í mannlegri tilvist.
Umfaðmið tilraunir og umfaðmið mistök, því þar munið þið vaxa. Verið opin fyrir gagnrýni og samtali, verið auðmjúk. Tileinkið ykkur aga og flæði á sama tíma. Takið námið ykkar alvarlega en verið samtímis opin í listinni.
Í sinni tærustu mynd getur listin verið rýmið og töfrastundin þar sem við verðum vitni hvert að öðru og þar afhjúpast kjarni listarinnar. Í listinni finnum við og týnum okkur á sama tíma.
Listin gerir okkur kleift að tjá það sem ekki hefur verið sagt og sjá það sem ekki hefur verið séð. Hún skapar nýja hugsun og ný sjónarhorn. Hún er ekki aðeins spegill á samfélagið, hún er líka hamar til að móta það.
Í náminu ykkar þá hvet ég ykkur til að stíga inn í hugrekkið ykkar. Þorið að elta það sem vekur raunverulegan áhuga ykkar. Verið hugrökk í viðfangsefnum, nálgunum og aðferðafræði. Það er einmitt hlutverk þessa skóla að virkja hið sértæka í ykkur.
Ræktið og myndið tengsl, leggið ykkur fram við að tengjast öðrum og jafnframt ykkur sjálfum, leitið til hvors annars, leitið til okkar, deilið reynslu ykkar, hlustið og lyftið hvert öðru upp þegar á reynir.
Veturinn framundan er fullur af tækifærum til samstarfs, nýsköpunar og vaxtar. Nýtið ykkur allt sem þessi skóli getur boðið ykkur – vinnustofur, fyrirlestra, sýningar og viðburði. Verið óhrædd við að taka áhættur, mistök eru ómissandi hluti af sköpunarferlinu og þau geta leitt til endurfæðingar og djúpra byltinga.Munið að sérhver listamaður hefur staðið frammi fyrir áskorunum og efasemdum, en það sem skiptir máli er hvernig þið bregðist við þeim.
Nálgist því hindranir sem tækifæri – verið sveigjanleg í hugsun ykkar og þjálfið með ykkur þrautseigju og tileinkið ykkur samkennd gagnvart sjálfum ykkur og öðrum. Leitið innblásturs og hvatningar alls staðar, í samræðum – við jafnaldra, leiðbeinendur og heiminn í kringum ykkur.
Kæru nemendur,
Njótið þess að vera nemendur við Listaháskóla Íslands. Megi ferðalag ykkar hér verða umbreytandi, innblásandi og fullt af möguleikum.
Ég hlakka til ferðarinnar með ykkur og segi hér með skólann settann.