Automatic translation by Google Translate.We cannot guarantee that it is accurate.

Skoða vefinn á Íslensku

Rannsóknarleyfum fyrir skólaárið 2026–2027 hefur verið úthlutað

  • 11.desember 2025

Þremur leyfum fyrir skólaárið 2026–2027 hefur verið úthlutað til akademískra starfsmanna Listaháskólans.

Sahar Ghaderi, arkitektúrdeild

Sahar hlaut rannsóknarleyfi á vorönn 2027 fyrir verkefnið „Geothermal Energies, Food Production, and Architecture: Toward a Visionary Model for Productive Cities in Iceland“. Sahar lýsir verkefninu svo:

„ Rannsóknin fjallar um tengsl jarðvarma, matvælaframleiðslu og arkitektúrs með því að markmiði að þróa ný líkön fyrir sjálfbært borgarlíf á Íslandi. Verkefnið beinist einnig að því hvernig megi endurhugsa jarðvarmauppbyggingu með hönnun til að skapa vistvænar borgir sem efla samfélagslega þátttöku. Verkefnið byggir á samstarfi milli Listaháskóla Íslands, Arkitektaskólans í París-Malaquais, Háskólans í Lúxemborg og Landbúnaðarháskóla Íslands, þar sem Ísland verður nýtt sem lifandi tilraunastofa til að kanna borgarlegt og samfélagslegt gildi jarðvarma. Með hönnunarrannsóknum og GIS-kortlagningu verða dregin fram tengsl milli jarðvarmakerfa, matvælakerfa og borgarrýma. Þessi greining mun leiða til hönnunarlíkana sem sýna hvernig orka og framleiðsla geta verið hluti af daglegu borgarlífi. Niðurstöðurnar verða birtar í ritrýndri grein, myndrænum kortum og kynntar á Hugarflugi, ON-Research og við LHÍ. Með því að tengja saman umhverfisgögn, menningarlegar frásagnir og arkitektóníska sýn leggur verkefnið til framsækið líkan fyrir framtíðarborgir sem byggja á umhyggju, framleiðni og samlífi við náttúruleg orkukerfi. Rannsóknin stuðlar að íslenskri og alþjóðlegri umræðu um sjálfbærni, nýsköpun og aðlögunarhæfni hönnunar “

Sirra Sigrún Sigurðardóttir, myndlistardeild

Sirra fær leyfi á haustönn 2026 fyrir verkefnið „Almyrkvi 2026“. Sirra lýsir verkefninu svo:

„ Rannsóknarleyfið styður við áframhaldandi listrannsóknir mínar á náttúrulegum og manngerðum kerfum, með sérstakri áherslu á tímann sem efnivið og upplifun. Kjarnaverkefni rannsóknarinnar er almyrkvi 12. ágúst 2026, einstakur atburður sem sést aðeins einu sinni á Íslandi á nær 270 ára tímabili. Almyrkvi er skammvinnt augnablik þar sem fyrirbæri sem venjulega eru okkur ósýnileg verða skyndilega áþreifanleg og minna á að við tilheyrum stærra samhengi. Rannsóknin mun nýta almyrkvann sem listrænt viðfang og stað til að kanna hvernig slíkur atburður getur birtist í efni, mynd og annarri skrásetningu. Í rannsókninni verður unnið með fjölbreyttar aðferðir: stafrænar og hliðrænar myndavélar, staðbundna skrásetningu og efnislega úrvinnslu þar sem ljósnæm plötugrafík og aðrar prentaðferðir verða prófaðar. Dvalið með efninu eftir atburðinn, greina þau og þróa framsetningar sem taka mið af margvíslegum áhrifum myrkvans, bæði í náttúru og manngerðu umhverfi. Unnið verður að nýjum verkum sem sýnd verða á sýningu í The Art Gallery of Nova Scotia í Kanada árið 2027.

Ása Helga Hjörleifsdóttir, kvikmyndadeild

Ása Helga hlaut rannsóknarleyfi á vorönn 2027 fyrir verkefnið „Óhemja (BEAST)“. Ása Helga lýsir verkefninu svo:

„ ÓHEMJA er kvikmynd í fullri lengd, blanda af leikinni kvikmynd og skapandi heimildarmynd. Í stuttu máli er þema myndarinnar sköpunarferli kvenkyns listamanna, og það sköpunarrými sem þær hafa tekið sér – eða ekki – í gegnum söguna. Við sjáum leiknar senur úr listamannslífi kvenna á borð við Mary Shelley, Mary Wollstonecraft, Nínu Sæmundsson, Marianne Faithfull, Shirley Jackson, Virginiu Woolf og fleiri. En samofið þessu leikna fortíðarefni er saga úr samtímanum, heimildaefni, þar sem við fylgjumst með kvikmyndagerðarkonu – Ásu Helgu Hjörleifsdóttur – lifa lífi sínu og skapa sína næstu kvikmynd (leiknu kvikmyndina Nóttin er Ung) í hinu þrönga, öfgafulla og oft á tíðum sakbitna sköpunarrými sem listakonur búa við, eða búa sér til. Sbr. titill verksins – þú ert óhemja, jafnvel skrímsli, ef þú tekur þér þetta pláss. Skammastu þín. Myndin er í beinu samtali við bókina Sérherbergi eftir Virginiu Woolf sem kom út árið 1929, en á ennþá – nánast 100 árum síðar – alveg ótrúlega mikið erindi. Það er draumur höfundar að kvikmyndin Óhemja verði tilbúin á 100 ára útgáfuafmæli bókarinnar, árið 2029. “

Rannsóknarleyfi eru 85 virkir dagar eða um 17 vikur. Samkvæmt reglum skólans eru formleg skilyrði fyrir veitingu rannsóknarleyfis þau að starfsmaður hafi skilgreint rannsóknarhlutfall innan ráðningasamnings, hafi uppfyllt starfsskyldur sínar samkvæmt þeim samningi og geti sýnt fram á virkni í rannsókn við upphaf rannsóknarleyfis. Verkefnin sem unnin eru skulu vera á því sérsviði sem starfsmaður er ráðinn til við skólann og leiða til miðlunar á opinberum vettvangi.

Rannsóknarnefnd fagráðs leggur mat á umsóknir og gerir tillögu að forgangsröðun þeirra út frá faglegum viðmiðum um gildi verkefnis fyrir fræðasvið lista, skýrleika rannsóknaráætlunar, raunhæfi verk- og tímaáætlunar og áætlunar um miðlun, sem og með tilliti til formlegra skilyrða. Rektor veitir rannsóknarleyfi.

Við óskum Sahar, Sirru og Ásu Helgu til hamingju með úthlutunina og hlökkum til að fylgjast með afrakstri verkefnanna síðar.