Automatic translation by Google Translate.We cannot guarantee that it is accurate.

Skoða vefinn á Íslensku

Opni LHÍ settur formlega af stað

  • 6.mars 2025

Formlegri opnun Opna LHÍ var fagnað í húsakynnum Listaháskóla Íslands í Stakkahlíð 1 þann 5. mars. Opni LHÍ er nýr og spennandi vettvangur skólans til þess að opna listnám fyrir almenning og efla endurmenntun fagfólks í listum, hönnun, arkitektúr og listkennslu.

Gátt Listaháskólans til almennings og fagfólks

Markmið Opna LHÍ er tvíþætt. Annars vegar er um að ræða vettvang fyrir símenntun, starfsþróun og tengslamyndun fyrir starfandi list- og fagfólk. Hins vegar er stefnt að því að glæða áhuga almennings á listum og veita sem breiðustum hópi aðgang að sérþekkingu og aðstöðu Listaháskólans.

Kristín Eysteinsdóttir, rektor Listaháskólans, bauð gesti velkomna og Oliver Rähni, nemandi í tónlistardeild, lék einleik á píanó við tilefni opnunarinnar.

“Það er langþráður draumur að Opni Listaháskólinn takið flugið. Við viljum opna dyrnar fyrir áhugasama á öllum aldri með því að bjóða upp á fjölbreytt úrval námskeiða á sviðum lista og menningar og ég trúi því að þannig gerum við samfélag okkar ríkara. Einnig ætlum við okkur að bjóða fagfólki í listum upp á námskeið sem dýpka sérhæfingu þeirra og hæfni. Við erum full eftirvæntingar og hlökkum til að taka á móti sem flestum.” sagði Kristín Eysteinsdóttir, rektor Listaháskólans í ræðu sinni af þessu tilefni.

Fyrstu námskeiðin farin af stað

Fyrstu námskeiðin eru nú þegar farin af stað og má nefna afar vel lukkað námskeið í samstarfi við Borgarleikhúsið í tengslum við sýninguna “Þetta er Laddi” þar sem Edda Björgvins fræddi þáttakendur um húmor og hans mörgu hliðar og tilgang.  Þáttakendur fræddust um Ladda, einn þekktasta gamanleikara landsins og fóru í kjölfarið á rennsli á sýningunni. Áframhaldandi samstarfs við Borgarleikhúsið, sem og aðrar menningarstofnanir er að vænta.

Námskeiðaframboð Opna LHÍ er í stöðugri þróun og byggist á samtali við fagfélög í list- og menningargeiranum auk þess að nýtast við hinn mikla og fjölbreytta mannauð  sem Listaháskólinn býr yfir.

Opni LHÍ mun bjóða upp á um tuttugu námskeið á vorönn 2025, og stefnt er að það efla enn frekar samstarfið við fagfélög og fyrrverandi nemendur skólans.

hægt er að kynna sér fjölbreytt úrval námskeiða Opna LHÍ með því að smella á hnappinn hér fyrir neðan.

Myndir: Owen Fiene

Aðrar fréttir og greinar