Automatic translation by Google Translate.We cannot guarantee that it is accurate.
Skoða vefinn á Íslensku
Það ríkti sannkölluð veislustemning þegar nýja matsala Listaháskólans tók til starfa í dag og voru móttökurnar mjög góðar! Spenna og eftirvænting hefur legið í loftinu undanfarna daga og það leið ekki á löngu þar til fólkið streymdi inn í salinn.
Girnilegir réttir heilluðu bæði nemendur og starfsfólk og stemningin var létt og lífleg. „Þetta er rugl gott“ og „Hvað er að frétta?“ heyrðist kallað um salinn – og ljóst að maturinn sló í gegn.
„Dásamleg upplifun. Ótrúlega spennandi. Allir rosalega jákvæðir og það er ótrúlega gott að koma hingað í svona jákvætt andrúmsloft,“ sagði Arna Sif, sem sér um reksturinn á matsölunni, með brosið út að eyrum.
Arna Sif og Freyja Pálsdóttir stóðu vaktina á matsölunni með myndarbrag og það er okkur sérstakt ánægjuefni að Arna er fyrrverandi nemandi Listaháskólans.
Fyrirtækið Bragðlaukar sér um matseldina. Þar starfar öflugt teymi fagfólks með víðtæka reynslu úr veitingageiranum sem leggur áherslu á gæði, ferskleika og frábæra þjónustu.
Við bjóðum Bragðlauka hjartanlega velkomna og hlökkum til að sjá matsöluna dafna sem líflegan og ljúffengan samveruvettvang innan skólans.