Automatic translation by Google Translate.We cannot guarantee that it is accurate.

Skoða vefinn á Íslensku

MA í sviðslistum

Decor overlay

MA nám í sviðslistum er tveggja ára nám ætlað sviðslistafólki sem vilja efla færni sína og þekkingu á sviðslistum, ýmist í gegnum leikritun, leikstjórn, sviðshöfundanám eða kóreógrafíu. Nemendur velja eitt af þessum sérsviðum í upphafi náms og sérhæfa sig á því sviði. 

  • Opnað fyrir umsóknir

    14. janúar 2026

  • Umsóknarfrestur

    2. mars 2026

  • Umsóknum svarað

    Maí / júní 2026

  • Skrásetningargjald

    Skoða nánar

  • Nafn námsleiðar

    MA í sviðslistum

  • Nafn gráðu

    MA

  • Einingar

    120 ECTS

  • Lengd náms

    4 annir – 2 ár

Uppbygging náms

 

Á fyrsta ári öðlast nemendur þekkingu og hæfni innan sviðslista og þróa listrænar aðferðir sínar. Á öðru ári færist áherslan á einstaklingsmiðaða rannsókn og listsköpun nemenda þar sem þau þróa listræna hugsun sína og hæfni. Áhersla er lögð á að efla gagnrýna og skapandi nálgun nemenda á miðilinn, sameina fræði og framkvæmd og skapa fjölbreytt sjónarhorn sem ögra og dýpka listræna hugsun nemenda.

Hver nemandi þróar eigin aðferðir og nálganir í sviðslistum í gegnum ólík námskeið, listræn verkefni og rannsóknir, jafningjamat, mentorakerfi og opinbera viðburði. Í lok náms þróar hver nemandi sjálfstætt lokaverkefni út frá eigin sérsviði. Nemendur útskrifast með 120 ECTS einingar, tilbúnir til að sækja um í doktorsnám í listrænum rannsóknum eða starfa sem sjálfstæðir sviðslistamenn.

Námið er staðbundið og er í nánum tengslum við íslensku sviðslistasenuna, meðal annars við leikhús, hátíðir og sjálfstæða sýningarstaði.

Inntökuskilyrði

Umsækjendur skulu hafa lokið BA gráðu. Skilyrði fyrir umsókn fara eftir því um hvaða sérhæfingu þeir sækja:

  • MA í sviðslistum (leikstjórn): Umsækjandi skal hafa BA í leiklistarfræðum, leikaranámi eða sviðslistum/sviðshöfundanám.
  • MA í sviðslistum (kóreógrafía): Umsækjandi skal hafa BA í dansi eða kóreógrafíu.
  • MA í sviðslistum (leikritun): Umsækjandi skal hafa BA gráðu.
  • MA í sviðslistum (sviðshöfundur): Umsækjandi skal hafa BA gráðu í listgreinum.

Í sérstökum tilfellum er heimilt að veita umsækjendum sem hafa að baki listrænan feril og faglega reynslu en hafa ekki lokið BA gráðu inngöngu í námið, svo framarlega sem þeir sýni fram á umfangsmikla þekkingu á sviðslistum.

Umsóknar- og inntökuferli

Allar umsóknir um nám fara í gegnum umsóknargátt og munu öll samskipti varðandi umsóknarferlið fara þar fram.

Ef fjöldi umsækjenda sem standast inntökukröfur námsleiða er undir lágmarksviðmiðum verður ekki tekið inn á námsleið fyrir komandi skólaár. Eru umsækjendur upplýstir um slíkt eins fljótt og auðið er og skrásetningargjald endurgreitt, hafi það verið greitt.

Opnað fyrir umsóknir

14. janúar 2026

Umsóknarfrestur

2. mars 2026

Umsóknum svarað

Maí / júní 2026

Verðskrá

Skoða nánar

Fyrri hluti

Inntökuferlið skiptist í tvo hluta. Fyrri hlutinn samanstendur af innsendu efni. Annar hlutinn samanstendur af viðtali, kynningu og hópverkefni.  

Til að umsókn sé fullgild þarf að borga skrásetningargjald og eftirfarandi gögn* þurfa að berast Listaháskólanum: 

*Athugið – Öllum rafrænum gögnum skal skilað sem PDF.

  • Staðfest afrit af prófskírteini/prófskírteinum og námsferilsskrá/námskeiðsskrá (PDF)

    Skylda

    Umsækjendur skulu skila inn prófskírteinum og ítarlegum námsferli með námsferilsskrá fram að deginum í dag. Hægt er að skila skjölum á íslensku eða ensku. 

  • Kynningarbréf (PDF)

    Skylda

    Umsækjendur verða að skrifa kynningarbréf á ensku (hámark 3 bls í A4) um ástæður þess að þau sækja um námið og um valið sérsvið (leikstjórn, leikritun, sviðshöfundur eða kóreógrafía). Vinsamlegast útskýrið eftirfarandi atriði:

    • Hvaða listrænu reynslu þú hefur og hvernig sú reynsla hefur leitt til ákvörðunar um að hefja nám.
    • Þá hæfni sem þú býrð yfir og mun gagnast þér í náminu og innan valins sérsviðs.
    • Listræna sýn þína og helstu áhugasvið innan valins sérsviðs.
    • Settu fram eigin listrænu spurningu á viðkomandi sérsviði sem þú vilt rannsaka í námi þínu.
    • Útskýrðu hvað í þinni eigin reynslu innan sviðslista og námi hefur leitt þig að þessari tilteknu spurningu.
    • Útskýrðu hvernig þú telur að þetta meistaranám muni hjálpa þér að dýpka hæfni þína.
  • Ferilskrá (PDF)

    Skylda

    Umsækjendur verða að skila inn ferilskrá á ensku. Ferilskráin ætti ekki að vera lengri en tvær síður og innihalda listræn verkefni. 

  • Ferilmappa (PDF)

    Skylda

    Myndir, textar, upptökur, hljóð og/eða myndband (tenglar á Dropbox, Youtube, Vimeo o.s.frv.).  

    Umsækjendur skulu safna saman sýnishornum af verkum sínum í ferilmöppu (e. portfolio). Mappan skal innihalda fjögur sýnishorn, sem eiga að endurspegla umsækjandann og varpa ljósi á áhugasvið og helstu hugðarefni hans innan sviðslista. Úr sýnishornum á að vera hægt að lesa listræna hugsun umsækjanda og getu hans til framsetningar á hugmyndum sínum.

    Jafnframt eiga umsækjendur að skrifa samantekt um hvert sýnishorn þar sem þeir greina frá hlutverki sínu innan verkefnisins, listrænni sýn sinni, vinnuferli og aðferðum, og hvernig verkefnið endurspeglar helstu hugðarefni umsækjanda innan sviðslista. Hver samantekt ætti ekki að vera lengri en 2-3 bls.

    Athugið að ekki er óskað eftir verkum í fullri lengd og umsækjendur eru hvattir til þess að velja fremur styttri hluta af lengri verkum svo inntökunefnd hafi færi á að fara yfir öll gögn í ferilmöppum umsækjenda. 

    Skila á ferilmöppu/portfolio með eftirfarandi hætti:
    Umsækjendur skila inn möppu á rafrænu formi. Mappan þarf að vera á .pdf formi og á allri möppunni að vera skilað sem einu .pdf skjali. Hljóðverk, videóverk og sambærileg skjöl skulu send sem virkir hlekkir/slóð inni í möppunni. Rafrænni möppu er skilað inn í rafrænu umsókninni undir ,,Umsóknar ferilmappa/portfolio” eða ,,Tenglar”. 

  • Innsent efni mun vera metið út frá eftirfarandi viðmiðum:

    • Hugmyndaauðgi: Hæfni umsækjanda til að fylgja innsæi sínu og finna hugmyndum sínum farveg með skapandi hætti.   
    • Áræðni: Horft er til forvitni,  frumkvæðis og sjálfstæðra vinnubragða umsækjanda í listrænni vinnu, túlkun, úrvinnslu hugmynda og framsetningu.    
    • Formskynjun: Meðvitund um möguleika og mörk þeirra tjáningarforma sem umsækjandi velur sér.   
    • Uppbygging: Hæfni umsækjanda til samsetningar skriflegra eða  verklegra verkefna. Horft er m.a. til flæðis, samhengis og dramatúrgíu, beitingu stílbragða og  uppbrota við merkingarsköpun.    
    • Ígrundun: Hvernig umsjækendi fjallar um eigin verkefni, listræna sýn og vinnuferli.  

     

  • Tungumálakröfur

    MA nám í sviðslistum er alþjóðlegt nám sem fer fram á ensku og íslensku. Nemendur skulu hafa góða enskukunnáttu, bæði í töluðu og rituðu máli, í fræðilegu samhengi. Umsækjendur gætu þurft að leggja fram gögn um enskukunnáttu sína. 

Annar hluti

Hópi umsækjenda sem standast fyrsta hluta verður boðið að taka þátt í öðrum hluta inntökuferlisins. Annar hlutinn samanstendur af hópverkefni, kynningu og viðtali.  

  • Hópverkefni

    Hópverkefni sem inntökunefnd setur fyrir, þar sem umsækjendur geta sýnt fram á samvinnu- og samskiptahæfni sína

  • Kynning

    Kynning þar sem umsækjandi lýsir og ræðir við inntökunefnd um listrænt verkefni sem hann hefur þegar lokið. Kynningin, ásamt umræðum, ætti ekki að vera lengri en 20 mínútur.

    Spurningar til að hugsa um fyrir kynninguna:  

    • Hvernig var ferlið?
    • Hvert var hlutverk þitt innan þess?
    • Hvaða aðferðir og nálganir notaðir þú?
    • Hvað myndir þú gera öðruvísi?
    • Hvernig endurspeglar þetta verkefni listræna sýn þína?
    • Hvað myndir þú þróa áfram og hvernig?
  • Viðtal

    Viðtal við inntökunefndina – 30 mínútur.

    Dæmi um spurningar:  

    • Hvers vegna hefur þú áhuga á sviðslistum?
    • Hvers konar sviðslistir veita þér innblástur?
    • Hvers vegna velur þú þessa sérgrein?
    • Spurningar um aðferðir og nálganir umsækjanda, sem og um reynslu innan sviðslista
    • Spurningar sem tengjast inntökuferlinu
  • Í öðrum hluta eru umsækjendur metnir út frá eftirfarandi viðmiðum:

    • Vinnusiðferði: Viðhorf umsækjanda til vinnu og náms og hæfni umsækjanda til sjálfstæðrar vinnu og samvinnu. Horft er til sjálfstæðis og frumkvæðis umsækjanda. Einnig því hvernig viðkomandi tekur gagnrýni og hugmyndum annarra og nýtir í listrænni vinnu.    
    • Samskiptahæfni og gagnrýnin hugsun: Hæfni umsækjanda til að tjá sig um eigin vinnu, þau verkefni sem viðkomandi velur sér og sem lögð eru fyrir. Sem og hæfni umsækjanda til þess að tjá sig á gagnrýninn hátt um samtímalistir, sér í lagi sviðslistir.   
    • Ígrundun: Hæfni umsækjenda til að tjá sig um eigin verkefni, vinnuferli, aðferðir og nálganir. Sem og um listræna sýn sína og áhugasvið innan sviðslista.