Automatic translation by Google Translate.We cannot guarantee that it is accurate.

Skoða vefinn á Íslensku

Katrín Helga Andrésdóttir

Katrín Helga Andrésdóttir útskrifast með meistaragráðu og kennsluréttindi frá listkennsludeild vorið 2025.

 

Ljósmyndari Liv Toerkell

Unglingar sem elska ekki grunnskóla –

Valdefling með hálf-formlegu listnámi utan skólaveggja

 

Unglingar sem elska ekki grunnskóla fjallar um hvernig listnám utan hins hefðbundna skólakerfis getur stuðlað að valdeflingu unglinga, sérstaklega þeirra sem upplifa félagslega útskúfun eða finna sig ekki meðal jafnaldra sinna innan veggja grunnskólans. Rannsóknir sýna að listrænir unglingar séu viðkvæmur hópur, útsettur fyrir félagslegri útskúfun. Krefjandi verkefni utan skóla gætu virkjað sköpun þeirra, gáfur og eflt jákvæða sjálfsmynd í samskiptum við jafningja.

 

Í rannsókninni er stuðst við eigindlega aðferðarfræði, þar sem tekin voru viðtöl við fyrrum þátttakendur og leiðbeinendur í hálf-formlegu námi í sviðslistum. Þau lýstu því að upplifa í verkefnunum frelsi til að vera þau sjálf, að hafa myndað náin félagsleg tengsl og notuðu óspart orðið „að blómstra“. Kenningar um sjálfsmyndarsköpun voru notaðar til að greina áhrif slíks náms á þátttakendur. Rannsóknin sýnir fram á að unglingar sem passa ekki inn í félagslegt umhverfi grunnskóla, geta blómstrað í skapandi umhverfi þar sem þau fá meira rými til tjáningar og þar sem fjölbreytileika er fagnað.

 

Niðurstöðurnar sýna að hálf-formlegt listnám á borð við samfélagsleikhús með unglingum er mikilvægt úrræði sem getur stuðlað að jákvæðri sjálfsmynd og félagslegri virkni. Jafnframt getur það skapað menningarlegt verðmæti. Hins vegar bendir rannsóknin einnig á kerfisbundnar hindranir, þar á meðal skort á fjármagni og stuðningi frá stjórnvöldum. Með þessum niðurstöðum varpar ritgerðin ljósi á mikilvægi þess að veita unglingum fjölbreyttari menntaumhverfi og endurskoða hvernig skólar og samfélagið geta betur mætt þörfum þeirra.

 

Leiðbeinendur: Guðbjörg R. Jóhannesdóttir og Ásrún Magnúsdóttir
30 ECTS MA listkennslufræði
2025