Katrín Helga Andrésdóttir
www.special-k-special-k.com

Með tilkomu samfélagsmiðla er nánast hver einasti maður stöðugt að sviðsetja sjálfið. Er ég týpan til að pósta selfí með bjútífilter eða týpan sem póstar innblásnum tilvitnunum? Myndir, orð, hreyfing, hljóð, föt, hárgreiðslur - allt eru þetta tól sem við notum til að tjá okkur og skapa ímynd. Listsköpun er ein leið til þess að tjá og sviðsetja sjálfið því afurðin endurspeglar alltaf þann sem skapaði hana. Kannski er það þess vegna sem við sköpum list, ekki til að spegla samfélagið, heldur til þess að geta speglað okkur sjálf? Í verkinu Það stóð til að vera orðin frægari en þetta núna mætast ólík listform (myndlist, tónlist, ljóðlist, performans, dans og tíska) og skapa í sameiningu heim þar sem aðalpersónan bregður sér í mörg mismunandi gervi. Verkið breytist eftir samhenginu sem það er skoðað í, hvort það sem það er á myndlistarsýningu, í gegnum internetið eða á tónleikum. Það var unnið í samstarfi við ólíka listamenn og fær þannig að láni ólík samhengi þeirra - endurspeglar brot úr heimum þeirra. Upp úr 12 mismunandi tónlistarmyndböndum spretta 12 mismunandi fantasíur um sjálfið, einhverskonar sjálfsmyndir.