Automatic translation by Google Translate.We cannot guarantee that it is accurate.

Skoða vefinn á Íslensku

Hugarflug 2025: Óstöðug kerfi

  • 15.september 2025

Ráðstefnan Hugarflug fór fram í Listaháskóla Íslands fyrir helgi og bar yfirskriftina Óstöðug kerfi // Unstable Systems. Þemað vakti mikla athygli og fjallaði um hvernig óstöðugleiki getur verið drifkraftur í listum, hönnun og arkitektúr. Rannsakendur, listamenn og fræðimenn komu saman til að skoða hvernig óstöðugleiki – hvort sem hann birtist í tæknikerfum, vistkerfum, félagskerfum eða skynrænni upplifun – getur opnað nýjar leiðir til sköpunar og gagnrýnnar hugsunar.

Óstöðugleiki var skoðaður sem afl sem getur bæði raskað ríkjandi kerfum og skapað ný viðmið. Ráðstefnan var vettvangur fyrir fjölbreyttar rannsóknir og verkefni sem takast á við óstöðugleika í ólíkum samhengi – allt frá gervigreind og gagnvirkum kerfum til samfélagslegra umbreytinga og pólitískra áskorana.

Ellen Johanne Røed, rektor við Stockholm University of the Arts, hélt aðalfyrirlestur ráðstefnunnar. Hún er prófessor í kvikmynda- og miðlunarlist og leiðir rannsóknarverkefnið Image as Site. Røed hefur starfað á mörkum lista, tækni og siðferðilegra spurninga í listsköpun og hefur gegnt lykilhlutverki í þróun norrænna vettvanga fyrir list- og rannsóknastarf.

Yfir 50 þátttakendur víðsvegar að úr heiminum héldu erindi á ráðstefnunni og um 200 gestir sóttu hana, sem gerir Hugarflug 2025 að fjölmennustu ráðstefnunni til þessa. Hugarflugsnefndin þakkar öllum þátttakendum og gestum kærlega fyrir frábæra þátttöku og móttökur.

Hugarflug var haldið í þrettánda sinn í ár og hefur fest sig í sessi sem mikilvægur vettvangur fyrir skapandi og gagnrýna umræðu um rannsóknir í listum, hönnun og tengdum greinum.