Automatic translation by Google Translate.We cannot guarantee that it is accurate.
Skoða vefinn á Íslensku
Nýlega útskrifaðir sviðshöfundar fara nú eins og stormsveipur um sviðslistaheiminn og frumsýna hvert verkið á fætur öðru á leiksviðum borginnar.
Um liðna helgi frumsýndi Katrín Lóa Hafsteinsdóttir verk sitt Mergur í Tjarnarbíó en verkið var útskriftarverk Katrínar Lóu af sviðshöfundabraut vorið 2024.
Á stóra sviði Þjóðleikhússins var frumsýning á söngleiknum Ormstunga sem Hafsteinn Níelsson samdi ásamt Ólíver Þorsteinssyni en verkið leit fyrst dagsins ljós sem einstaklingsverk Hafsteins á öðru ári á sviðshöfundabraut haustið 2023.
Næstu helgi frumsýna svo tveir hollnemar verk sín í samstarfi við Borgarleikhúsið. Erna Kanema Mashinkila er höfundur og leikstjóri verksins, Þegar ég sé þig, sé ég mig á Nýja sviðinu, sem einnig var útskriftarverk Kanemu haustið 2023. Á Litla sviðinu er svo frumsýning á verkinu, Ekki hugmynd, sem Egill Andrason leikstýrir en hann útskrifaðist vorið 2024.
Með þeim í liði, innan og utan sviðs, má svo finna fleiri hæfileikaríka hollnema deildarinnar. Það veitir okkur innblástur og ómælda ánægju að sjá nemendur okkar vinna og skapa saman. Við óskum þeim öllum ásamt samferðafólki þeirra innilega til hamingju með áfangana og hvetjum öll til þess að sjá fjölbreytt verk þessarar nýju kynslóðar.