Automatic translation by Google Translate.We cannot guarantee that it is accurate.

Skoða vefinn á Íslensku

Bragi Hilmarsson – viðtal

  • 31.janúar 2025

Myndlistamaðurinn Bragi Hilmarsson er meistaranemi í listkennsludeild

 

Ég hafði alltaf haft mikinn áhuga á listum sem barn en taldi lengi vel að það yrði aldrei að neinu meira en áhugamáli,“ segir Bragi sem prófaði ýmislegt áður en hann settist á skólabekk í listkennsludeild LHÍ, þar á meðal Leiðsöguskólann og viðburðastjórnun við Háskólann á Hólum, en fann sig hvergi almennilega.

„Á meðan ég var í viðburðastjórnun áttaði ég mig á því að mér finnst bókfærsla, skattur og klósettskipulagning vera drepleiðinlegt kennsluefni. Mig langaði að læra eitthvað sem ég hafði áhuga á og ákvað að sækja um myndlistarnám, sem hafði alltaf verið á bak við eyrað. Það reyndist vera rétta ákvörðunin,“ segir Bragi en hann hóf í kjölfarið nám í myndlistardeild LHÍ.

 

Skjáskot úr myndbandsgjörningnum You’re so worth it (2019)

 

„Þar opnaðist fyrir mér nýr heimur, bæði í listinni sjálfri og í samfélaginu sem henni fylgir. Svo var ég það heppinn að fá starf sem tengist myndlist í Myndlistarskóla Kópavogs beint eftir útskrift og hef unnið þar síðan.“

Braga langaði að verða betri myndlistarkennari en einn kennarinn sem hann hafði unnið með í grunnskóla hvatti hann til að fara í kennaranám.

„Ég hóf nám í Háskóla Íslands ásamt fyrrum bekkjarsystur minni úr myndlistardeildinni. Þrátt fyrir að við kynntumst frábæru fólki og lærðum hjá góðum kennurum fundum við okkur ekki alveg í því umhverfi.“

Einn daginn lagði bekkjarsystir Braga til að þau heimsæktu listkennsludeildina í Listaháskólanum til að kanna möguleikann á að skipta yfir.

„Þegar við fengum staðfest að það væri mögulegt var ákvörðunin auðveld. Við erum sammála um að fátt jafnast á við andann og kennsluna í LHÍ. Starfsfólkið er einstaklega hlýlegt og nemendurnir frábærir. Það myndast mjög góður andi þar sem fólk með ólíkan bakgrunn kemur saman, deilir hugmyndum sínum og miðlar þekkingu sinni á listum. Ég veit miklu meira um kennslu tónlistar, textíls og leiklistar heldur en nokkru sinni fyrr, sem ég hefði annars aldrei spáð í, þökk sé fjölbreytileika kennaranemanna.“

 

Skjáskot úr fyrirlestrargjörningnum Lífhermar (2024)

 

„Að heyra hvernig annað listafólk vinnur og hugsar er mjög stór hluti af því sem mér finnst gera námið sérstaklega lærdómsríkt. Einnig finnst mér vettvangsnámið hafa kennt mér mjög mikið um hvernig aðrir kennaranemar nálgast myndlistarkennslu. Kennararnir eru líka mjög gjafmildir á visku sína og mér finnst þeir allir hafa raunverulegan áhuga á nemendunum.“

Bragi stefnir að útskrift á vorönn og er um þessar mundir að vinna að meistaraverkefni sínu frá listkennsludeild. Lokaverkefni hans snýst um að athuga hvort og hvernig nemendur í íslenskum grunnskólum læra um samtímalistgreinar eins og gjörninga, innsetningar og vídeóverk.

 

Skjáskot úr myndbandsgjörningnum Sometimes it’s like that (2019)

 

„Ég varð yfir mig hrifinn af þessum listgreinum þegar ég kynntist þeim í myndlistarnáminu, en hef oft fengið að heyra frá ungum sem öldnum að þetta sé ekki alvöru list því „þetta eru ekki málverk“ eða „eitthvað sem hægt er að kaupa og eiga heima“. Ég tel að ef fólk lærir um þessar listgreinar í æsku gætu svoleiðis viðhorf breyst með komandi kynslóðum.“

Framundan eru umfangsmikil skrif, fjölmörg viðtöl og líklega fjöldi yfirferða á ritgerðinni.

„Þetta er krefjandi ferli, en það er líka spennandi áskorun sem mér þykir mikilvæg. Ég hlakka til að sjá hvert rannsóknin leiðir mig og vona að hún geti haft raunveruleg áhrif. Eftir það ætla ég að taka mér frí frá tölvuskjánum,“ segir Bragi sem stefnir ótrauður að því að halda áfram að kenna að útskrift lokinni. „Ég stefni á að kenna í skóla þar sem ég get nýtt reynslu mína og þá þekkingu sem ég hef öðlast til að þróa og prófa skapandi og áhugaverðar kennsluaðferðir. Ég hlakka líka til að halda áfram að kenna á frístundanámskeiðum og nýta öll þau verkfæri sem ég hef aflað mér.“

 

Ljósmyndari: Vigfús Birgisson

Aðrar fréttir og greinar