Starfsnám veitir nemendum tækifæri til þess að öðlast þjálfun á fagvettvangi og skal hún tengjast því fagi sem nemandi stundar við LHÍ og stuðla að því að nemandi þrói færni sína í faginu. Um er að ræða dvalarstyrk, styttri starfsnám er 5-14 dagar en lágmarksdvalartími fyrir almennt starfsnám þ.m.t. starfsnám eftir útskrift eru tveir mánuðir.
Umsóknarferli
1. Að finna móttökuaðila: Nemandi finnur móttökuaðila. Æskilegt er að móttökuaðili liggi fyrir þegar nemendur sækja um styrk, en það er þó ekki nauðsynlegt.
2.
Umsókn um Erasmus+ styrk: Nemandi sem stefnir á starfsþjálfun eftir útskrift fyllir út umsókn um Erasmus styrk í gegnum
UGLU. Umsóknarfrestur er 1. maí ár hvert.
Nemandi sem stefnir á starfsnám að sumri þarf að sækja um fyrir 1. apríl og vera í samtalið við fagstjóra sem og Alþjóðaskrifstofu. Ekki er hægt að ganga frá samningum eftir að starfsnám hefst.
3. Viðhengi með Uglu umsókn: Athugið að nemendur þurfa að skila inn eftirfarandi viðhengjum með umsókninni:
- Námsferilsyfirlit (sækja hér)
- „Lýsing og ávinningur á starfsnámi“ (300-500 orð með tilliti til lengdar starfsnáms, a.m.k. 500 orð fyrir áætlaðar dvalir í 6 mánuði eða lengri tíma). Ekki þarf að skila inn starfsnámssamning á þessum tímapunkti, nema hann liggi fyrir. (síðasta skref í umsókn).
Hvenær get ég farið?
Nemendum gefst kostur á að sækja um styrk til starfsnáms að sumarlagi. Um er að ræða starfsnám utan hefðbundins námstíma og er það í sumum tilfellum metið til eininga (2 ECTS) en samþykki fagstjóra fyrir því þarf að liggja fyrir. Umsóknarfrestur er 1.apríl ár hvert.
Sviðshöfundabraut og dansbraut bjóða uppá starfsnám á námstíma. 15 vikna starfsnám jafngildir einni önn eða alls 30 ECTS einingum. Starfsnám er tilgreint á námsferli og á skírteinisviðauka sem fylgir prófskírteini við útskrift.
Útskriftarnemendur geta sótt um ERASMUS+ styrk til starfsnáms sem fram fer að lokinni útskrift. Sækja þarf um styrkinn fyrir 1.maí og nýta þarf styrkinn innan tólf mánaða frá útskriftardegi. Styrkurinn reiknast ekki til eininga en nemendur fá vottorð um starfsnám að því loknu.
Hverskonar starfsnám get ég farið í?
Starfsnám veitir nemendum tækifæri til þess að öðlast þjálfun á fagvettvangi. Þjálfunin skal tengjast því fagi sem nemandi stundar við LHÍ og stuðla að því að nemandi þrói færni sína í faginu. Nemendur nýta þekkingu og aðferðir sem þeir hafa lært í náminu á vettvangi. Starfsnám skal miða að því að:
- Styrkja tengslanet
- Byggja upp ferilskrá
- Leiða til aukinna starfstækifæra
- Veita alþjóðlega reynslu
Í starfsnámi vinnur nemandi þau verkefni sem honum eru falin hjá móttökuaðila, og hlýtur þjálfun frá sínum leiðbeinanda. Með þeim hætti felur starfsnám í sér ávinning fyrir báða aðila. Staða starfsnema getur verið launuð eða ólaunuð, en ávallt er um að ræða tímabundna stöðu. Listaháskólinn er ábyrgur fyrir styrkveitingu og veitir aðstoð ef upp kemur ágreiningur á milli aðila.
Hver getur verið móttökuaðili?
Móttökuaðili skal hafa víðtæka reynslu af fagvettvangi og ákjósanlegt er að leiðbeinandi hafi lokið námi í faginu. Móttökuaðili getur verið:
- Fyrirtæki
- Stofnun
- Samtök
- Sjálfstætt starfandi einstaklingur
Leiðbeinandi skal búa yfir þekkingu og færni sem gerir honum kleift að leiðbeina starfsnema þannig að hann hljóti markvissa þjálfun á þeim sviðum sem lýst er í starfsnámssamningi. Að þessu leyti er ekki gert ráð fyrir að um jafningjafræðslu sé að ræða. Nánar um móttökuaðila:
- Ekki er unnt að veita styrk fyrir starfsnám sem unnið er á Íslandi, hvort sem um er að ræða fjarvinnu eða vegna verkefna móttökuaðila hérlendis. Ef hluti starfsnámsins fer fram á Íslandi, þarf að draga umrædda daga frá styrktímabilinu.
- Móttökuaðili skal skilgreina verkefni starfsnema með það í huga að nemandi sé í þjálfun og að hann eigi að öðlast ákveðna færni í starfsnáminu. Starfsnemi getur aldrei komið í stað starfsmanns/launþega.
- Móttökuaðili ábyrgist að þjálfun nemandans fari fram á faglegan hátt. Mikilvægt er að móttökuaðili skilji hlutverk sitt sem leiðbeinandi og nýti ekki einungis starfskrafta starfsnemans í sína þágu.
- Móttökuaðili skal veita starfsnema fullnægjandi vinnuaðstöðu sem er í samræmi við þau verkefni sem honum eru falin.
- Miðað er við að móttökuaðili geti tekið að hámarki við 1-2 nemendum frá Listaháskólanum á ári.
Hvernig finn ég móttökuaðila?
Nemendur eru ábyrgir fyrir því að finna móttökuaðila sem getur uppfyllt markmið starfsnámsins. Alþjóðaskrifstofa LHÍ tekur ekki að sér að finna móttökuaðila fyrir nemendur. Þó eru hér nokkur ráð sem geta beint nemendum í rétta átt:
- Fagstjórar og kennarar nemenda geta veitt ráðgjöf og geta nýtt eigið tengslanet til þess að benda nemendum á aðila á vettvangi.
- Ef nemandi hefur áhuga á að vera í starfsnámi hjá tilteknum listamanni, stúdíói, stofu, samtökum eða öðru, sakar ekki að finna netfang hjá viðkomandi, senda þeim línu og athuga hvort þau séu að leita sér að starfsnema.
- Á vefsíðunni erasmusintern.org má finna upplýsingar um aðila sem auglýsa eftir starfsnemum.
- Margar atvinnuleitarsíður eins og Welcome to the Jungle eru með leitarflokk fyrir starfsnám.
- Sum ríki í Evrópu halda úti vefsíðum með leitarvélum fyrir starfsnám. Sem dæmi rekur franska ríkið þessa síðu, danska ríkið þessa hér og þýska ríkið þessa hér.
Ég er með móttökuaðila. Hver eru næstu skref?
Ef þú sóttir um starfsnám á Uglu, fékkst umsóknina samþykkta og hefur fundið móttökuaðila er næsta skref að fylla út
starfsnámssamning með móttökuaðila. Starfsnámssamningur tilgreinir markmið starfsnámsins, verkefni nemanda, hæfniviðmið, ásamt tímabili og fyrirkomulagi starfsnáms. Með samningnum skuldbindur móttökuaðili sig til þess að veita nemenda þjálfun, og nemandi skuldbindur sig til þess að starfa hjá móttökuaðila samkvæmt lýsingu.
Samningurinn er í þremur hlutum:
-
- Before the mobility
- During the mobility
- After the mobility
Einungis skal fylla út grunnupplýsingarnar efst sem og fyrsta hlutann (before the mobility) með móttökuaðila, undirrita hann og senda á netfang alþjóðaskrifstofu. Hér eru nokkur atriði í samningnum sem alþjóðaskrifstofa fær oft spurningar um:
- Study cycle: Hér er námsstig tilgreint (BA/MA)
- Field of education: Hér er námsgrein tilgreind samkvæmt ISCED kóðum Evrópusambandsins:
-
0114: Listkennsla
-
0211: Grafísk hönnun & kvikmyndalist
-
0212: Fata- og vöruhönnun, MA hönnun
-
0213: Myndlist
-
0215: Tónlist & sviðslistir
-
0731: Arkitektúr
- Number of working hours per week: Starfsnám skal vera að lágmarki 30 klukkustundir á viku. Allt umfram það er samkomulag milli starfsnema og móttökuaðila. Starfsnema er ekki skylt að vinna umfram umsaminn vinnutíma.
- Detailed programme of the traineeship: Hér er mikilvægt að starfsnemi og móttökuaðili greini skýrt frá því hvaða verkefni verða lögð fyrir starfsnemann.
- Monitoring plan: Hér er fyrirkomulag eftirfylgni útskýrt. Þetta geta sem dæmi verið vikulegir morgunfundir með starfsnemanum á mánudögum eða stöðufundir í hádeginu annan hvern föstudag.
- Financial support: Móttökuaðila er frjálst að greiða starfsnema laun fyrir vinnu sína en þá er mikilvægt að það komi fram í starfsnámssamningi. Ef umbun fyrir unnin störf er í formi fríðinda, s.s. samgöngukorts, hádegisverðar á virkum dögum, gistiaðstöðu, miða á menningarviðburði, afnot á reiðhjóli, o.s.frv. skal lista þau undir contribution in kind.
- Accident & liability insurance: Starfsnemi er ekki tryggður af Listaháskóla Íslands á meðan hann er í starfsnámi. Því er mikilvægt að starfsnemar skoði hvort þeir séu tryggðir ef þeir lenda í slysi í starfsnáminu, þeir taki með sér Evrópska Sjúkratryggingakortið og að þeir verði sér úti um viðbótartryggingu telji þeir þörf á því. Móttökuaðili getur einnig tekið fram í samningi hvort starfsnemanum bjóðist trygging á þeirra vegum eða ekki.
Hvernig virkar starfsnámsstyrkurinn?
Styrkupphæðir eru breytilegar ár frá ári og eins eftir löndum. Rannís heldur úti þessari vefsíðu en þar má finna nánari upplýsingar um starfsnámsstyrki og er þar hlekkur á síðu með styrkupphæðir. Styrkurinn samanstendur af:
- Ferðastyrk
- Dvalarstyrk
- Starfsþjálfunar-viðbót (150€ á mánuði)
Í sumum tilfellum getur nemandi einnig sótt um inngildingarstyrk en þá bætast 250€ á mánuði við styrkupphæðina. Frekari upplýsingar um inngildingarstyrki má finna hér.
Þegar nemandi hefur skilað öllum nauðsynlegum gögnum til alþjóðaskrifstofu fær hann 70% styrksins millifærð, þó aldrei fyrr en að minnsta kosti 2 vikur eru í að starfsnám hefjist. Seinni greiðslan, 30%, er svo millifærð á nemanda eftir að starfsnámi er lokið og lokaskýrslu hefur verið skilað. Lokaskýrsla er síðasti hluti starfsnámssamningsins (e. After the mobility / TRAINEESHIP CERTIFICATE) og er hún fyllt út af móttökuaðila að starfsnámi loknu og skilar nemandi henni til alþjóðaskrifstofu.
Siðareglur og mikilvæg atriði
Gott er að hafa í huga eftirfarandi atriði:
- Ekki gert ráð fyrir því að nemendur fari í starfsnám til núverandi samstarfsaðila eða félaga sinna.
- Ekki er gert ráð fyrir því að styrkja samstarfsverkefni eða sjálfstæða vinnu nemenda undir handleiðslu leiðbeinanda.
- Starfsnámsstyrkur miðast við dvalartímabil hjá móttökuaðila, utan Íslands, í Evrópu.
- Starfsnema er ekki skylt að vinna önnur verkefni en þau sem koma fram í starfsnámssamningi, sér í lagi ef þau tengjast ekki þjálfun í faginu.
- Starfsnám skal vera að lágmarki 30 klukkustundir á viku. Allt umfram það er samkomulag milli starfsnema og móttökuaðila. Starfsnema er ekki skylt að vinna umfram umsaminn vinnutíma.
Ef upp kemur ágreiningur við móttökuaðila, t.a.m. vegna ofangreindra atriða eða vegna eineltis eða áreitis, skal nemandi leita til alþjóðaskrifstofu og/eða námsráðgjafa LHÍ tafarlaust.
Nordplus
Nemendur geta einnig sótt um Nordplus styrk til styttri dvalar í eina til átta vikur á Norður- og Eystrasaltslöndum. Nánari upplýsingar um Nordplus styrki veitir alþjóðaskrifstofa.
Hafa samband / Bóka viðtalstíma
Finnir þú ekki upplýsingarnar sem þú ert að leita að á þessari síðu getur þú haft samband við alþjóðaskrifstofu með því að senda póst á exchange@lhi.is eða bókað viðtalstíma hjá verkefnastjóra á alþjóðaskrifstofu með því að smella á hnappinn hér fyrir neðan.