Automatic translation by Google Translate.We cannot guarantee that it is accurate.
Skoða vefinn á Íslensku
Wadada Leo Smith // Fyrirlestur 18.11.25 kl. 15:30 // Dynjandi, Skipholt 31, 105 Reykjavík
Trompetleikarinn og tónskáldið Wadada Leo Smith verður með kynningu á sinni tónlist og eigin myndrænni nótnaskrift í Dynjanda þriðjudaginn 18. nóvember kl 15:30.
Wadada Leo Smith er stórt nafn í heimi framsækinnar jazztónlistar, tónsmíða og frjáls spuna. Hann á að baki langan feril með samstarfi við lykilfólk á borð við Anthony Braxton, Muhal Richard Abrams og John Zorn.
Viðburðurinn er á vegum MÍT og LHÍ og öll eru velkomin.
Wadada Leo Smith
Trompetleikarinn og tónskáldið Wadada Leo Smith verður á tónleikaferðalagi í Evrópu í
nóvembermánuði næstkomandi í síðasta skipti á löngum ferli. Hann hefur heimsótt Ísland níu
sinnum á rúmlega 40 árum, fyrst 1982 þegar hann lék í Félagsstofnun stúdenta á vegum
Jazzvakningar. Wadada hefur heimsótt landið til tónleikahalds og kennslu reglulega, stundum í
langan tíma í einu. Á þessu tímabili hefur hann haft mikil áhrif á íslenska tónlistarmenn og átt
samstarf við fjölmarga, m.a. Skúla Sverrisson, Matthías Hemstock, Magnús Trygvason
Elíassen, Hilmar Jensson o.fl. sem hafa komið fram með honum og einnig leikið inn á upptökur.
Tónleikar Wadada og píanóleikarans Vijay Iyer í Hörpu í janúar 2017 voru vel sóttir og
eftirminnilegir. Listasalurinn Mengi gaf út hugleiðingar Wadada, Nótur, árið 2018.
Samstarfsmenn Wadada á Íslandi telja mikilvægt að nota tækifærið á fyrirhugaðri hinstu
tónleikaferð hans til Evrópu og efna til síðustu tónleika á Íslandi 18. nóvember, til að fagna þeim
tímamótum og þakka fyrir framlag Wadada til íslenskrar tónlistar.
Wadada Leo Smith er frumkvöðull í bandarískri jazz- og nútímatónlist og einn af helstu
trompetleikurum samtímans. Árið 2016 var hann valinn besti trompetleikari jazzins og jazzmaður
ársins af tímaritinu DownBeat og samtök jazzblaðamanna völdu hann tónskáld ársins 2015.
Óður hans til mannréttindabaráttu, fjögurra geisladiska kassinn Ten Freedom Summers, var
tilnefndur til Pulitzer-tónlistarverðlaunanna 2013. Auk tónlistarflutnings hefur Wadada kennt
tónsmíðar við Bard College, CalArts og Harvard skólann. Trompetmeistarinn og tónskáldið
verður 84 ára í desember og hefur á síðustu árum hlotið margar viðurkenningar eins og æðstu
viðurkenningu UCLA háskólans til leikmanna 2019, en aðrir sem hafa hlotið þá viðurkenningu
eru m.a. Ella Fitzgerald, Henry Mancini, Herb Alpert og Quincy Jones, rithöfundurinn Toni
Morrison og Bill Clinton fyrrverandi forseti. Wadada var árið 2023 tekinn inn í American
Academy of Arts and Letters, heiðurssamfélag listamanna og rithöfunda, fyrir framlag sitt til
tónlistarsköpunar.
Þrátt fyrir háan aldur hefur Wadada lítið slakað á. Í mars á þessu ári var hann með ferna
tónleika á Big Ears Festival í Knoxville, þar sem m.a. var fluttur tuttugasti strengjakvartett hans
og núna í apríl kom út dúettplata hans og Vijay Iyer hjá ECM útgáfunni.
Á tónleikunum í Iðnó 18. nóvember nk. spila ásamt Wadada, Jakob Bro gítarleikari, Skúli Sverrisson bassaleikari og Matthías Hemstock trommuleikari.