Automatic translation by Google Translate.We cannot guarantee that it is accurate.
Skoða vefinn á Íslensku
Stine Marie Jacobsen hefur í gegnum verk sín og listsköpun þróað listræna aðferð sem hefur áhrif á almenningsrými og opinbera orðræðu. Frekar en að skapa sjálfstæða hluti, vinnur hún að langtíma samvinnuverkefnum með virkri þátttöku borgara, námsmanna, lögfróðra sérfræðinga, rannsakenda og stofnana.
Verk hennar beinast að samvinnu og ferilbundnum vinnuaðferðum sem eiga sér stað á sameiginlegum félagslegum vettvangi þar sem þátttakendur úr ýmsum áttum eru leiddir saman til að kanna hvernig áhrif, ábyrgð og sameiginleg ákvarðanataka mótast. Í gegnum þessi verkefni sem eiga sér stað á mótum lista, kennslu, lögfræði og borgaralegra innviða, er tekist á við spurningar um þátttöku, valdatengsl, samþykki og ábyrgð.
Jacobsen lítur ekki á almenningsrýmið sem hlutlausan bakgrunn heldur umdeilt og samningsbundið svið sem mótast af félagslegum, pólítískum og efnahagslegum aðstæðum. Í fyrirlestrinum mun Stine Marie Jacobsen kynna fagurfræði innviða, hugmyndir um snertifleti og siðferði þátttöku ásamt því að fjalla um þróun listarinnar í samfélögum og almenningsrými á næstu árum.
Stine Marie Jacobsen er konseptlistmaður sem hefur þróað langtíma þátttökuverk og kennslufræðileg listræn verkefni í samstarfi við aðra og sem hluti af teymi rannsakenda, lögfræðinga, stjórnmálamanna og annarra.
Jacobsen er með M.F.A. gráðu í myndlist frá Konungulegu dönsku listaakademíunni og B.F.A. gráðu frá CalArts í Los Angeles, Kaliforníu, Bandaríkjunum. Hún hefur lokið framhaldsþjálfun í lausn átaka og friðaruppbyggingu hjá Friðamiðstöðinni við Chulalongkorn háskólann í Bankok, Tælandi. Jacobsen hefur á síðustu fimmtán árum öðlast mikla reynslu af því að starfa á átakasvæðum og í samhengi afnýlenduvæðingar í löndum eins og Kólumbíu, Líbanon, Grænlandi og Austur-Úkraínu.
Jacobsen hefur skapað og þróað fjölda þátttöku- og kennslufræðilegra verkefna eins og Direct Approach (2021–) þar sem þátttakendur endursegja ofbeldisfyllsta kvikmyndaatriði sem þeir hafa séð og leika síðan fórnarlamb, ofbeldismann eða áhorfanda í kvikmyndaðri endurgerð atriðsins. Hún er einnig höfundur Law Shifter (2016–), þar sem hún vinnur með lögfræðingum að því að bjóða fólki að endur-skapa raunverulegt lögfræðilegt ferli og koma síðan með tillögu að sínu eigin lagaferli. Hún hefur einnig þróað Group-Think (2020–) sem er íþrótta- og mótmælaverkefni sem miðaðar að því að þjálfa sameiginlega greind og öryggi innan stærri hópa.