Automatic translation by Google Translate.We cannot guarantee that it is accurate.
Skoða vefinn á Íslensku
Tumi Magnússon myndlistarmaður heldur fyrirlestur föstudaginn 23. janúar kl. 13 í fyrirlestrarsalnum í Laugarnesi. Tumi ætlar að ræða nýlegar innsetningar og kynna nokkur eldri verk sem sýna þróun verka hans í gegnum ólíka miðla og afstöðu hans til listsköpunnar.
Í verkum sínum einblínir Tumi oft á einföld og leiðinleg atvik í hversdeginum. Verkin byggja á einfaldri rökfræði og náttúrulögmálum sem eru innbyggð í þessi atvik og hvernig snúa má upp á þau til að gera þau bærileg og áhugaverð. Verkin fjalla einnig um það hvernig hægt er að nota hverslegar aðstæður sem verkfæri til að hugsa um eitthvað allt annað eins og tíma, hraða, hljóð og skynjun.
Tumi vinnur með ólíka miðla eins og ljósmyndir, vídeó, hljóð, og málverk sem eru mikilvægur hluti af verkum hans. Hann lítur á þetta sem leið til að viðhalda ferskleika, forðast að ná of mikilli tæknilegri færni og leyfa möguleikum eins miðils að hafa áhrif á annan miðil. Verk hans búa yfir glettni sem gerir þau aðgengileg áhorfendum og umlykur þau ákveðnum léttleika.
Fyrirlesturinn verður á ensku.
Tumi Magnússon fæddist á Íslandi árið 1957. Hann lærði myndlist við Myndlista- og handíðaskóla Íslands og AKI (Academie voor Beeldende Kunst) í Hollandi. Hann hélt sína fyrstu einkasýningu árið 1981. Tumi hefur á ferli sínum sem myndlistarmaður sýnt víða, meðal annars í Nýlistasafninu í Reykjavík, í Norrænu listamiðstöðinni í Helsinki, í Cenre PasquArt í Biel í Sviss, á tvíæringnum í Sao Paulo í Brasilíu, í MACMO, Samtímalistasafni Montevideo í Uruguay og á Listasafni Íslands. Tumi var prófessor við myndlistardeild Listaháskóla Íslands frá 1999–2005 og við Konunglegu dönsku listaakademíuna frá 2005–2011.