Automatic translation by Google Translate.We cannot guarantee that it is accurate.
Skoða vefinn á Íslensku
Gestagangur // Pétur Ármannsson, arkitekt og sviðsstjóri húsverndarsviðs, Minjastofnun Íslands // HÁBORG MENNTA Á RAUÐARÁRHOLTI
Skipulag Rauðarárholts er merkur en lítt þekktur kapítuli í þróunarsögu Reykjavíkur sem höfuðborgar. Holtið var að mestu ónumið land fram undir seinni heimstyrjöld ef frá eru talin stakkstæði og grjótnámur. Fyrsta mannvirkið efst á hæðinni var vatnsgeymirinn sem byggður var til að auka þrýsting í dreifikerfi vatnsveitunnar eftir bæjarbrunann 1915. Skömmu fyrir seinni heimsstyrjöld reis fyrsti áfangi verkamannabústaða við Háteigsveg og Meðalholt og árið 1942 var haldin samkeppni um nýbyggingu fyrir Sjómannaskóla. Frá árinu 1948 eru fyrstu drög að skipulagi Hlíðanna austan Lönguhlíðar þar sem gatan Stakkahlíð var mörkuð út frá turni Sjómannaskólans. Á næstu árum mótaðist sú hugmynd að svæðið austan hinnar nýju götu yrði skólasamfélag með ýmsum stofnunum: kennaraskóla, menntaskóla, æfingaskóla kennara, barna- og gagnfræðaskólum, auk íþróttahúss, knattvallar, heimavista og íbúðarhúsa fyrir skólastjóra og kennara – eins konar „háborg“ mennta og menningar, hliðstæða við lóð Háskóla Íslands á Melunum. Þar reis m.a. hús Kennaraskóla Íslands við Stakkahlíð (Enni) eftir uppdráttum Harðar Bjarnasonar húsameistara ríkisins og Steinars Guðmundssonar, ein merkasta opinbera bygging eftirstríðsáranna hér á landi.
Fæddur í Hafnarfirði 1961. Stúdent frá eðlisfræðideild Menntaskólans í Reykjavík 1980. Nám í arkitektúr við The University of Toronto, Kanada, lokapróf (B.Arch.Hons) 1986. Framhaldsnám í arkitektúr við Cornell University, Ithaca, New York, meistarapróf 1991. Arkitekt á teiknistofunni Bankastræti 11 1991–1993. Deildarstjóri byggingarlistardeildar Listasafns Reykjavíkur 1993–2005. Stundakennari við arkitektúr- og hönnunardeild Listaháskóla Íslands frá 2002. Arkitekt hjá Glámu-Kím arkitektum ehf. auk sjálfstæðra rannsóknar- og ráðgjafarverkefna 2005–2013. Sviðsstjóri húsverndarsviðs hjá Minjastofnun Íslands frá 2013. Höfundur fræðigreina, fyrirlestra, sýningartexta, bóka og dagskrárefnis um byggingarlist. Hlaut menningarverðlaun DV í byggingarlist 2014 fyrir bók um Manfreð Vilhjálmsson, ásamt Halldóru Arnardóttur. Hefur tvívegis hlotið tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna í flokki fræðirita og rita almenns efnis. Sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu 2021 fyrir rannsóknir á sögu byggingarlistar á Íslandi og miðlun þekkingar á því sviði. Kjörinn heiðursfélagi í Arkitektafélagi Íslands 2021. Hlaut viðurkenningu Hagþenkis 2020 fyrir yfirlitsrit um ævi og verk Guðjóns Samúelssonar húsameistara.
Aðgengi að Bratta er gott, salerni eru á sömu hæð.