Automatic translation by Google Translate.We cannot guarantee that it is accurate.

Skoða vefinn á Íslensku

Afmælishátíð sviðslistadeildar: Málþing um framtíð sviðslistamenntunar

 

Í haust eru 25 ár síðan að leikaranám á Íslandi fór upp á háskólastig þegar Leiklistarskóli Íslands var lagður niður og leikaranám stofnað við LHÍ árið 2000 auk þess sem 20 ár eru frá stofnun sviðshöfundanáms og diplómanáms í samtímadansi við LHÍ 2005.

Ljóst er að stofnun þessara brauta, og síðar alþjóðlegs samtímadansnáms til BA gráðu, hefur haft óumræðileg áhrif á íslenskar sviðslistir og eflt bæði fagvettvanginn og fræðasamfélagið í jöfnum mæli. Í tilefni þessara tímamóta býður sviðslistadeild Listaháskóla Íslands til afmælisveislu og málþings  laugardaginn 13. september.

Bjarni Jónsson, leikskáld og sviðslistamaður, flytur hátíðarávarp og sviðslistahópurinn 16 elskendur stígur á stokk auk þess sem gestum býðst að sitja og taka þátt í málstofum um framtíð sviðslistanáms. Svo verður að sjálfsögðu boðið upp á köku!

Málþingið fer fram í húsnæði Listaháskóla Íslands að Laugarnesvegi 91, 105 Reykjavík. Gengið inn fyrir ofan hús, frá malarbílastæðinu.

Aðgangur er ókeypis en gestir eru vinsamlegast beðnir um að skrá sig í forminu hér fyrir neðan.

 

Dagskrá

11:30-12:00 – Húsið opnar.

12:00-12:15 – Una Þorleifsdóttir, deildarforseti sviðslistadeildar, býður gesti velkomna.

12:15-13:00 – Bjarni Jónsson flytur hátíðarávarp: Sumt sem breytist. 

13:00-13:30 – 16 elskendur: Getur einhver hjálpað mér ?

13:30-14:00 – Kaffi, kaka og afmælissöngur.

14:00-16:00 – Þrjár samhliða málstofur um framtíð sviðslistanáms: Leikaranám, sviðshöfundanám og samtímadansnám.

Nú í vetur stendur yfir endurskoðun á öllum námsleiðum í BA námi við sviðslistadeild og því viljum við nýta þessa afmælishátíð til að bjóða fagvettvangnum til samtals um framtíð sviðslistanáms á Íslandi.

  • Leikaranám – Horft til framtíðar

    – stofa L141

    Fagstjóri leikarabrautar, Agnar Jón Egilsson, leiðir málstofuna.

    Þátttakendur í málstofu: Birna Pétursdóttir, Halldóra Geirharðsdóttir, Stefán Jónsson & Þorvaldur Davíð Kristjánsson.

  • Sviðshöfundanám – Horft til framtíðar

    – stofa L223

    Fagstjóri sviðshöfundabrautar, Gréta Kristín Ómarsdóttir, leiðir málstofuna.

    Þátttakendur í málstofu: Egill Heiðar Anton Pálsson, Eva Rún Snorradóttir, Karl Ágúst Þorbergsson & Kolbrún Björt Sigfúsdóttir.

  • Samtímadansnám – Horft til framtíðar

    – stofa L143

    Fagstjóri alþjóðlegrar samtímadansbrautar, Katrín Gunnarsdóttir, leiðir málstofuna.

    Þátttakendur í málstofu: Aðalheiður Halldórsdóttir, Brogan Davison, Felix Urbina & María Kristín Jóhannsdóttir.

Um Bjarna Jónsson: Bjarni lauk magisterprófi í leikhúsfræðum frá Ludwig Maximillians Universität í München 1992 og hefur frá árinu 1994 starfað sjálfstætt sem leikskáld, dramatúrg og þýðandi. Hann er höfundur að fjölda leikverka og leikgerða fyrir leikhús og útvarp, var í tvígang tilnefndur til Norrænu leikskáldaverðlaunanna („Kaffi“ 1998 og „Óhapp!“ 2008), hlaut Norrænu útvarpsverðlaunin árið 2004 fyrir „Svefnhjólið“ sem hann vann í samstarfi við hljómsveitina Múm og Grímuna árið 2018 fyrir leikgerð sína af þríleik Jóns Kalmans Stefánssonar, „Himnaríki og helvíti“.

Bjarni er einn af stofnendum leikhópsins Kriðpleir og hefur verið ein aðaldriffjöður hans sem meðhöfundur og leikstjóri verkanna „Blokkin“ (2012), „Lítill kall“ (2013), „Síðbúin rannsókn“ (2014) „Krísufundur“ (2015), „Ævisaga einhvers“ (2016), „Bónusferðin“ (2018), „Litlu jólin“ (2019), „Vorar skuldir“ (2021) og „Innkaupapokinn“ (2025).

Bjarni hefur einnig unnið sem höfundur og dramatúrg með leikhópnum The Brokentalkers í Dublin („Have I No Mouth“, „Frequency 783“, „This Beach“, Woman Undone“, „The Boy Who Never Was“, „Bellow“) og sem dramatúrg í verkum Ernu Ómarsdóttur; „Fórn“, „Tomorrow Is Another Day Of Wants And Needs“, „Orfeus+Eurydike“, „The Juliet Duet“ og „Hringir Orfeusar“. Hann var einn af stofnendum Lókal, alþjóðlegrar leiklistarhátíðar í Reykjavík árið 2007 og í forsvari fyrir hátíðina fram til ársins 2018


Um 16 elskendur: Sviðslistahópurinn er samstarf listamanna úr ólíkum geirum, leiklist, myndlist, tónlist, danslist og gjörningalist. 16 elskendur setja upp sýningar þar sem mörk hefðbundinna leiksýninga eru máð og þannig látið reyna á mæri raunveruleika og sýningar. Í efnistökum sínum leitast 16 elskendur við að prófa og teygja orðræðu líðandi stundar og bjóða áhorfendum í „tilraunastofu“ þar sem þeirra eigið samfélag, hugsjónir og gildi eru krufin, þar sem áhorfendur og leikendur skoða samsetningu þjóðfélagsins í sameiningu.

16 elskendur hafa sýnt verk sín á Listahátíð í Reykjavík og á alþjóðlegu leiklistarhátíðinni Lókal, auk þess sem hópurinn hefur tekið þátt í samstarfi við Þjóðleikhúsið, Þjóðmenningarhúsið og nú síðast Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands. 16 elskendur voru tilnefnd til tveggja Grímuverðlauna árið 2012; leikskáld ársins og sproti ársins, fyrir leiksýninguna Sýning ársins, og hlutu verðlaunin fyrir sprota ársins.

Aðferðafræði 16 elskenda byggir á hugmyndinni um beint lýðræði og eru verkin alltaf unnin í þverfaglegri vinnustofu án þess að eiginlegur leikstjóri eða höfundur komi við sögu.