Egill Sæbjörnsson, myndlistar- og tónlistarmaður, er annar lykilfyrirlesara Hugarflugs 2020.

 
 
Flytur hann erindi sitt Frásögnin er alls staðar föstudaginn 14. febrúar kl. 12  í húsnæði Listaháskóla Íslands, Laugarnesvegi 91, í fyrirlestrarsal L193.
 
Beint streymi verður frá fyrirlestrinum á live.lhi.is.
 
 
Egill útskrifaðist úr Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1997 og hefur unnið og starfað í Berlín frá árinu 1999 en er reglulega á Íslandi með aðsetur og vinnuaðstöðu.
 
Hann hefur unnið með frásögn í verkum sínum með einum eða öðrum hætti frá því hann hóf feril sinn en meðal síðustu verka Egils má nefna framlag hans til Feneyjartvíæringsins árið 2017 þar sem frásögn spilaði stóra rullu en þar vann hann með tvö ímynduð tröll Ugh & Boogar og ímyndaðan heim í kringum sýninguna. Tröllin hafa síðan m.a. unnið með Sinfóníuhljómsveitinni í Dallas og gert myndlistarsýningu fyrir Ars Fennica í Helsinki. Sagan um þetta lifandi listaverk hefur semsagt undið upp á sig og spunnist áfram.
 
Egill tekur einnig fyrir aðdraganda þessa lifandi verks sem og fjalla um önnur verk sem hann hefur unnið í svipuðum anda í gegn um tíðina. Hann lýsir því hvernig frásögn er í raun hluti af kerfi mannsins til að skilja heiminn í gegn um hugsun og upplifun dags daglega og hvernig frásögn er óaðskiljanleg málverki, skúlptúr, performans og öðrum verkum sem gjarnan hafa verið séð sem frásagnarsnauð. 
 

Frásögnin er alls staðar

 
Í þessum fyrirlestri fjallar Egill Sæbjörnsson um frásögn í myndlist og tengir eigin listsköpun við verk annara listamanna og annara listgreina þar sem frásögn kemur fyrir. Oft er það ekki á þeim nótum sem beinast liggur fyrir, en hann nálgast fyrirbærið út frá frekar breiðu sjónarhorni og tengir hugtakið frásögn öðrum hugtökum eins og staðaranda, staðarsköpun (place making), persónusköpun, tónlist og öðru sem hann hefur verið að fást við í list sinni í gegn um tíðina.
 
Áhugavert er að velta því fyrir sér hvort sagan komi innan frá okkur eða komi inn í okkur utanfrá. Þetta sjónarhorn snérist við í Endurreisninni þar sem rætur einstaklingshyggju, kapitalisma og millistéttar okkar tíma má finna. Í gotík var þetta í hina áttina og Egill veltir því fyrir sér hvort framundan sé nýr viðsnúningur í ljósi þess að manneskjan verður að sjá sig sem hluta af heild, en ekki sem skorin út úr heildinni, þ.e.a.s. náttúrunni. 
 
Heimasíða Egils er www.egills.de og netfang er egill.studio [at] gmail.com 

 

thumbnail_egill_saebjornsson._ugh_boogar_ad_borda_folk_i_feneyjum._fra_felagsmidlamyndbandi._2017._courtesy_of_the_artist.png
Mynd: Egill Sæbjörnsson. Ugh & Boogar að borða ferðamenn í­ Feneyjum 2017. Stilla úr félagsmiðlamyndbandi sem dreift var á Internetinu og voru hluti af ningunni í­ framlagi hans til íslenska skálann í Feneyjartværingnum árið 2017. Courtesy of the artist & i8 gallery

 

FLÝTILEIÐIR

 

Nánari upplýsingar / contact info: 

Ólöf Hugrún Valdimarsdóttir
olofhugrun [at] lhi.is