Síðustu ár hafa málsmetandi alþjóðlegar stofnanir ítrekað bent á mikilvægi sköpunargáfunnar sem lykilþáttar við úrlausn helstu ögrana 21. aldar. Sköpunargáfan er í þessu samhengi greind sem grundvallarhæfni til að takast á við samfélagslega framþróun og finna framtíð mannkyns farsælan farveg frammi fyrir erfiðum áskorunum.

Kjarni sköpunargáfunnar er varðveittur og ræktaður í listunum. Innan fræðasviðs lista er þessi kjarni ennfremur rannsakaður í þeim tilgangi að efla viðgang hans í samfélaginu almennt.

Listir eiga erindi við alla og fela í sér eiginleika sem fá önnur svið mannlegra athafna búa yfir.

Þær vinna þvert á mæri menningarheima, tungu og tíma. Sem slíkar eru þær sameiningarafl - kraftur sem tvinnar saman margvíslega aðra hæfni okkar til að skilja, skynja, greina, taka afstöðu, umbylta og þróa. Allt í því skyni að gera samfélag okkar, farsælla, umburðarlyndara og opnara.

Stefna Listaháskóla Íslands er sett fram á tímamótum sem marka tuttugu ára afmæli hans og um leið háskólanáms í listum hér á landi.

Hún miðar að því að fullnýta þann kraft sem í mannauði slíkrar háskólastofnunar er fólginn, hvort heldur litið er til starfsfólks eða nemenda. Forsenda þess að stefnan nái fram að ganga af þeim metnaði sem hér er settur fram er að starfseminni séu sköpuð fagleg skilyrði undir einu þaki líkt og stefnt var að í upphafi. Ennfremur er ljóst að til þess að Listaháskólinn nái fullum slagkrafti sem skapandi og hugmyndafræðilegt hreyfiafl inn framtíðina, þarf fjármögnun hans að vera í samræmi við það sem tíðkast í þeim löndum sem við berum okkur alla jafna saman við.

Í millitíðinni mun Listaháskólinn ótrauður halda áfram að rækta, rannsaka og miðla afrakstri listanna - sköpunargáfunnar - til framtíðar.

Fríða Björk Ingvarsdóttir, rektor.