Kolbrún Berglind Grétarsdóttir, tónlistarkona og meistaranemi í listkennsludeild LHÍ fæddist og ólst upp á Selfossi. Sem lítið barn var hún stöðugt syngjandi og sýndi fljótt þörf til að ástunda tónlist.
 
 
„Ég var send í Tónlistarskóla Árnesinga þar sem ég stundaði blokkflautu-, þverflautu- orgel og píanónám fram yfir unglingsár. Þaðan lá leiðin beint í tónmennta- og píanókennaradeildir Tónlistarskólans í Reykjavík. Ég söng með Mótettukór Hallgrímskirkju um árabil einnig sem ég spilaði með Lúðrasveit Selfoss og Reykjavíkur.
 
Ég starfaði sem barnakórstjóri, tónmennta-, forskóla, þverflautu- og píanókennari í mörg ár bæði í Reykjavík og úti á landi. Ég hef einnig skipulagt sérnám fyrir einstaklinga með þroskaskerðingu og Downs.  Ég hef því haft í mörgu að snúast, mér til mikillar ánægju,“ segir Kolbrún Berglind.
 
 
dsc06206_1.jpg
dsc06819.jpg
 

 

 
Áður en Kolbrún Berglind hóf nám við LHÍ var hún í fullri stöðu sem tónlistarkennari við Tónlistarskóla Árnesinga, gamla skólann sinn.
 
„Ég kenndi mest klassískan píanóleik en stjórnaði einnig yngri blokkflautusveit og yngri blásarasveit skólans sem og Barnakór Selfosskirkju,“ segir hún en ákvörðunin um að fara í frekara nám kom heldur óvænt til.
 
„Sumarið áður en ég hóf nám við LHÍ fór ég á leiklistarnámskeið í skólanum, það kveikti ef til vill einhvern neista. Tveimur dögum áður en umsóknarfrestur í skólann rann út, rakst ég á Facebook auglýsingu þar sem Elín Anna Ísaksdóttir kynnti meistaranám í söng- og hljóðfærakennslu,“ segir Kolbrún en hún hafði fram að því ekki verið að íhuga frekara nám af neinu tagi.
 
„ Ég var búin að koma mér reglulega vel fyrir í tónlistarkennarastólnum en eftir að hafa horft á auglýsinguna gerðist eitthvað innra með mér. Það blossaði upp sterk löngun til að staðna ekki heldur taka þátt í að móta tónlistarumhverfi framtíðarinnar. Ég hafði líka lengi fundið fyrir vanmætti þegar kom að valþætti námskrár tónlistarskólanna og sá tækifæri til að efla mig á því sviði með því að fara í námið.“
 
 
Kolbrún Berglind segir námið hafa verið ævintýri frá upphafi til enda.
 
„Ég þarf stundum að stilla mig þegar ég lýsi fyrir fólki hversu gefandi og áhugavert það hefur verið að setjast aftur á skólabekk eftir tuttugu ára fjarveru. Fræðasamfélagið, hinar ýmsu kennslugreinar og lifandi og persónuleg kennsla standa upp úr. Það skiptir miklu máli að fá að spegla sig í fræðunum og marka sér stefnu, vinna í veikleikum sínum og eflast í styrkleikunum – að fá byr undir vængina.“
 
 
20230531_110419.jpg
 
Kolbrúnu langar heilshugar að hvetja starfandi tónlistarkennara til að íhuga meistaranám í söng- og hljóðfærakennslu.  
 
„Það er skemmtilegt, valdeflandi og til þess gert að efla tónlistarkennslu á landinu okkar góða. Fyrir utan þá miklu naflaskoðun sem námið veitir og endurnýjun á hugarfari þá hef ég mun sterkari framtíðarsýn sem tónlistarkennari. Ástríða mín til tónlistarkennslunnar og nemenda sem einstaklinga hefur vaxið og gefið mér nýja orku sem ég veit að mun gagnast mér vel í starfi. Í dag glíma margir við starfskulnun  og á það ekki síst við um tónlistarkennara sem oft eru einangraðir í störfum sínum. Þessi einangrun er áhættuþáttur í sjálfu sér sem  getur leitt af sér stöðnun og skort á framtíðarsýn. Fjölbreytni námsins við LHÍ veitir fyllingu og fókus til framtíðar.“
 
 
Kolbrún Berglind stefnir að útskrift þetta vorið og valdi hún að búa til námsefni sem lokaverkefni úr meistaranáminu.
 
„Ég er að skrifa æsispennandi námsefni, eins konar forskóla í píanóleik fyrir 4-7 ára nemendur sem kenna má bæði í hóp- og einkatímum. Námsefnið tekur á tæknikennslu, nótnalestri, hrynþjálfun og tónfræðihugtökum í gegnum söng og leiki í litlum skrefum sem hæfa smáfólkinu. Ég nota hermikennslu (rout teaching) spuna og tónsmíðar nemendanna til að framkalla eðlilegar hreyfingar við hljóðfærið og börnin fá að nota hljómborðið sem leiksvæði.
 
 
dsc02413.jpg
 

 

Í námsefninu verða einnig litlar æfingar sem hjálpa til við tilfinninganæmi og opna á íhugun um lífið og tilveruna – sem geta orðið kveikjur að tónsmíðum. Grunnur námsefnisins er frelsi barnsins til að velja hvaða leið það vill fara í tónlistarnáminu þar sem barnið hefur sterkan klassískan grunn með rythmísku ívafi. Ég trúi að þessi leið valdefli barnið og að hljóðfærið verði tæki til tjáningar og lífsfyllingar“, segir Kolbrún Berglind sem er hvergi nærri hætt að læra þó komið sé að útskrift frá Listaháskólanum.
 
„Framundan er að klára lokaverkefnið, útfæra það enn frekar, njóta sólar og sumars og gróðursetja nokkur blóm. Næsta vetur stefni ég á að halda áfram í suzuki píanókennaranámi sem ég hef lagt stunda á meðfram náminu við LHÍ og bæta færni mína í rytmískum píanóleik“
 
 
screenshot_20200709-214445_photos.jpg