Automatic translation by Google Translate.We cannot guarantee that it is accurate.

Skoða vefinn á Íslensku

Ávarp rektors til nýnema LHÍ  

  • 15.ágúst 2023

Kæru nemendur,
Verið hjartanlega velkomin í Listaháskóla Íslands.

Það eru einstaklega gleðileg tímamót að fagna nýju skólaári í fyrsta sinn sem rektor við skólann. Ég trúi því að nám við Listaháskóla Íslands sé eitt mikilvægasta verkefnið á sviði menningar í landinu.  Í þessum skóla mótast framtíð menningar og lista.

Listaháskólinn er suðupottur fyrir framsækna hugsun, hann er hreyfiafl fyrir nýsköpun og rannsóknir sem skila sér beint til samfélagsins í formi verka, samtals og umbreytandi hugmynda.

Skapandi hugsun og ræktun hennar eru lykilþættir þegar kemur að helstu áskorunum 21. aldarinnar og þið, kæru nemendur, gegnið þar stóru hlutverki.

Markmið okkar sem hér störfum eiga fyrst og fremst að snúast um ykkur kæru nemendur:  að virkja og þjálfa hæfni ykkar, hugvit og þekkingu með áherslu á nýsköpun, sjálfstæði, framsækni og fagmennsku.

Listaháskólinn á að vera staður þar sem þið fá rými og tíma til að rækta ykkar eiginleika og sérstöðu undir handleiðslu framúrskarandi fagfólks, staður þar sem þið getið prófað ykkur áfram, gert tilraunir, spurt spurninga, leitað og síðast en ekki síst fundið nýjar leiðir.

Til að slíkt sé mögulegt þarf aðstaða skólans að vera framúrskarandi, við róum því öllum árum að því að koma Listaháskólanum undir eitt þak. Mikill áfangasigur var unninn á dögunum þegar tilkynnt var að fjármagn væri nú tryggt til að samkeppni gæti hafist um uppbygginu Listaháskólans í Tollhúsinu við Tryggvagötu.

Kæru nemendur,

Ég hvet ykkur til að njóta þess ferðalags sem framundan er.

Leyfið ykkur að leita því leitin sjálf er einn mikilvægasti þáttur sköpunarinnar. Leyfið ykkur að fara í gegnum allan skóginn til að finna eitt tré.

Leitið að ósögðu sögunum, óvæntu sjónarhornunum, veltið við steinum, leitist við að að varpa ljósi á hið óvænta, að setja hlutina í annað samhengi.

Leitið að mennskunni, fegurðinni, grimmdinni og gæskunni.

Verið forvitin, um allt í mannlegri tilvist.

Leyfið ykkur að gera mistök því þegar þið horfið til baka þá munið þið sjá að mistök eru mun mikilvægari lærdómur en velgengni.

Leyfið ykkur að hafa skoðun og leyfið ykkur að skipta um skoðun. Gerið það oft.

Það er oft talað um að við eigum að vita hvað við viljum. Það er auðvelt. Það er miklu meira spennandi að að spyrja: Við hvað erum við hrædd? Ef við þorum að spyrja þeirrar spurningar í heiðarleika og auðmýkt þá ferðumst við inn á ókönnuð landsvæði. Það er einmitt þar sem uppgötvunin verður til.

Stígið inn í hugrekkið ykkar. Finnið ástríðuna ykkar og farið alveg upp að henni, þorið að horfast í augu við hana.

Verið hugrökk í viðfangsefnum, nálgunum og aðferðafræði. Það er á þeim stað sem þið finnið hið sértæka.

Og það er einmitt hlutverk þessa skóla að afhúpa hið sértæka sem í ykkur býr. Að leysa það úr læðingi. Að virkja það svo að þið getið veitt okkur hinum nýtt sjónarhorn á okkar eigin tilveru.
Og þar, einmitt þar liggur hlutverk listarinnar. Þegar henni tekst að varpa nýju ljósi á tilveru okkar og setja hana í nýtt samhengi.

Listin gerir okkur kleift að verða vitni hvert að öðru og þegar við verðum vitni hvert að öðru þá verður til tenging. Í þessari tengingu afhjúpast kjarni og tilgangur listarinnar.

Listin er lífsnauðsynleg.

Listin gerir okkur kleift að finna okkur og týna okkur á sama tíma.

Listin er ekki bara spegill á samfélagið heldur líka hamar til að móta það.

Listin hjálpar okkur að deyja ekki úr raunveruleika.

Leikstjórinn Antonin Artaud talaði um að listamenn væru íþróttamenn hjartans.

Heimspekingurinn Baudrillard sagði að hlutverk listarinnar væri að afhjúpa það sem er falið, að fella tjöld raunveruleikans.

Kæru nemendur,

Þjálfið hjartað og látið tjöldin falla. Njótið þess að vera nemendur við Listaháskóla Íslands.

Ég hlakka til ferðarinnar með ykkur og segi hér með skólann settann.