Automatic translation by Google Translate.We cannot guarantee that it is accurate.

Skoða vefinn á Íslensku

Ævi og störf

Ævi og störf Halldórs Hansen

 • Æviágrip

  Halldór Jón Hansen fæddist í Reykjavík 12. júní 1927. Hann lauk embættisprófi í læknisfræði frá Háskóla Íslands og hélt þá utan til New York í kandidatsnám þar sem hann sérmenntaði sig í barnalækningum og barnageðlækningum. Eftir heimkomuna frá Bandaríkjunum árið 1960 starfaði hann sem héraðslæknir á Egilsstöðum í sex mánuði. Hann fluttist síðan til Reykjavíkur þar sem hann starfaði á Geðverndardeild barna á Heilsuverndarstöð Reykjavíkur og tók við yfirlæknisstöðu ungbarnaeftirlitsins þar 1. júlí 1961, en þeirri stöðu gegndi hann þar til hann hætti fyrir aldurs sakir.

  Halldór var um skeið formaður Félags íslenskra barnalækna og stjórnarmaður í Félagi norrænna barnalækna og var gerður heiðursfélagi í ýmsum læknasamtökum. Halldór hafði ætíð mikinn áhuga á tónlist, einkum sönglist, og átti stórt hljómplötusafn með klassískri tónlist. Frá barnæsku var það ástríða hans að sækja tónleika og óperusýningar, fyrst á Íslandi, en síðar hvar sem hann bar niður í heiminum.

  Söngvarar sem sungu frá hjartanu voru ávallt í hávegum hafðir hjá Halldóri og nokkrir þeirra allra fremstu urðu góðir vinir hans, eins og Gerard Souzay og Elly Ameling. Hann skrifaði mikið um söng og tónlistarmál jafnt í dagblöð og tímarit og einnig leikskrár fyrir Íslensku óperuna. Hann kenndi við Söngskólann í Reykjavík um árabil og var listrænn ráðgjafi Tónlistarfélagsins í Reykjavík og Íslensku óperunnar.

  Ófáir íslenskir söngvarar nutu handleiðslu Halldórs, fengu plötur til láns, ráð um raddbeitingu eða val verkefna.Halldór arfleiddi Listaháskóla Íslands að tónlistarsafni sínu og húsi. Að auki stofnaði Halldór sjóð við skólann, sem mun hafa það hlutverk að styrkja unga tónlistarmenn og byggja upp tónlistarsafn skólans.

  Halldór lést 21. júlí 2003, 76 ára að aldri.

 • Halldór, húsið hans og hljómplöturnar

  Texti eftir Árna Tómas Ragnarsson

  Halldór hafði afskaplega hlýja og góða nærveru. Hann tranaði sjálfum sér aldrei fram, talaði hægt og rólega og af mikilli yfirvegun. Hann hafði djúpan skilning á öllu mannlegu og hann forðaðist í lengstu lög að dæma aðra, svo mjög að það jaðraði við afstöðuleysi. Þegar ég kynntist honum var hann fremur þéttur á velli, dálítið bangsalegur í útliti, hreyfingum og allri framkomu. Á árum áður var hann hávaxinn og spengilegur, en þá reykti hann 3 pakka á dag og bætti líkleg á sig þegar hann hætti.

  Halldór var sannur heimsborgari, hafði í æsku dvalið í Vínaborg, á unga aldri í París og síðar lært barnalækningar í New York. Þetta voru alltaf hans uppáhaldsborgir, hans heimaborgir. Þó ferðaðist hann víða um heim alla ævi, ýmist vegna starfa sinna sem læknir eða til að hlusta á tónlist eða til að hitta einhverja af fjölmörgum erlendum vinum sínum, sem flestir voru eitthvað að sýsla við tónlist, þó mest við sönglistina.

  Við Halldór ræddum oft um tónlist og tónlistamenn. Ég upptendraður og óðamála, en Halldór forvitinn og íhugull. Það var sama hvaða nafn ég nefndi; alltaf skyldi Halldór bæta við þegar ég hafði lokið mér af: „Hann, já hann er góður listamaður. Ég hitti hann í New York 1953 og við höfum skrifast á síðan“. Það hefur alltaf ollið mér heilabrotum hvernig hinn hægláti og óframfærni Halldór gat hafa kynnst svona reiðinnar býsn af fólki, mörgu hverju heimsfrægu. En hann var svo sannur og lítillátur og vissi svo margt og dæmdi ekki; þess vegna sogaði hann fólk til sín.

  En þrátt fyrir mikinn vinafjölda held ég að Halldór hafi alltaf verið mjög einmana. Tónlistin var hans spúsa, plöturnar börn hans. Hann giftist ekki og átti engin börn og hann var síðasti laukur ættboga síns þannig að þegar hann dó þá átti hann engan lögerfingja. Mestur hluti af eigum foreldra hans og systkina sat eftir hjá honum í hinu stóra húsi hans á Laufásveginum ásamt minningunum, sem margar voru tregafullar eða beinlínis mjög sárar. Þegar hann lést aðstoðaði ég frænkur Halldórs lítillega við að taka til í húsinu hans. Það úði og grúði af alls kyns dóti, en andrúmsloftið var mest mettað minningum; minningum um harm fjölskyldunnar, sem þarna hafði lifað og nú var endanlega horfinn á braut með Halldóri. Fyrir utan alla hlutina voru skilin eftir persónuleg bréf í þúsundatali, ýmist bréf Halldórs sjálfs, foreldra hans eða systkina. Já, það voru í raun bæði bréfin frá þeim, en ekki aðeins  til þeirra, því oftast skrifuðu þau sín bréf með kalkipappírsafriti.

  Halldór ætlaði sér aldrei að verða læknir. Að loknu stúdentsprófi ætlaði hann að læra leiktjaldagerð fyrir óperur í Parísar. Hann hafði fengist við að gera brúðuleiktjöld sem barn, þegar óperuáhugi hans kviknaði, og staðfastur í þeirri trú að þetta væri það sem honum væri ætlað að gera. En örlögin gripu í taumana, bróðurdóttir hans lést í þegar ekið var yfir hana fyrir utan heimili hans á Laufásveginum. Faðir stúlkunnar og bróðir Halldórs hafði búið í Bandaríkjunum í nokkur ár, en gekk í sjóherinn í síðari heimstyrjöldinni og drukknaði. Faðir Halldórs, Halldór Hansen eldri, háði harða forræðisdeilu vegna barnsins og tókst um síðir að koma með það til Íslands, en fáum vikum síðar gerðist hið hörmulega slys. Þetta atvik hafði skelfileg áhrif alla fjölskyldu Halldórs, svo mikil að Halldór sem þá var ferðbúinn til Parísar, ákvað að verða um kyrrt hjá sínu fólki og „drap tímann“ næstu árin með því að læra læknisfræði.

  Eftir framhaldsnám í barnalækningum í New York fór Halldór aftur til Íslands, en draumurinn um óperulíf var þó ekki horfinn; hann ætlaði nú loks til Parísar og taka upp þráðinn, sem áður hafði frá horfið. Þá fuku áætlanir hans út í veður og vind öðru sinni; móðir hans lést árið 1961 og faðir hans kvæntist aftur ári síðar og vildi selja húsið og gera upp móðurarfinn við börn sín. En fóstra Halldórs, sem hafði annast hann af mikilli natni í æsku, þegar hann var langtímum saman mikið veikur, var nú orðin gömul og blind. Halldór gat ekki hugsað sér að hún yrði send á elliheimili og vissi að hún myndi ekki getað bjargað sér annars staðar en  í húsinu, sem hún hafði búið í áratugum saman. Enn lét Halldór fjölskylduna ganga fyrir. Hann gleymdi París, varð yfirlæknir á barnadeild Heilsuverndarstöðvarinnar, keypti húsið af föður sínum og bjó þar með fóstru sinni næstu árin og síðan einn eftir lát hennar það sem eftir var ævinnar.

   Húsið á Laufásvegi

  Faðir Halldórs var Halldór Hansen eldri, yfirlæknir og mikilsmetinn skurðlæknir á Landakotsspítala; hann var hreystimenni, mikill íþróttamaður, dýrkaður og dáður. Ólafía kona hans og móðir Halldórs var allt öðru vísi og hneigðist til spíritisma á efri árum. Halldór yngri var yngstur fjögurra systkina, mjög ólíkur föður sínum í allri skaphöfn og mótaðist líf hans að auki ávallt af miklum veikindum hans (astma) í æsku.

  Skömmu eftir fæðingu Halldórs yngra lét faðir hans byggja stórt hús utarlega á Laufásveginum. Það var á tveimur hæðum auk kjallara. Í nyrðri enda hússins var læknastofa og biðstofa. Þetta hús geymdi mikla sögu af Halldóri og fjölskyldu hans, en Halldór átti eftir að eiga þar heimili sitt til æviloka.

  Það er bæði skrítið og erfitt að lýsa þessu heimili innanstokks. Þegar gengið var inn í holið fann maður strax að það var eins og tíminn hefði numið þar staðar áratugum áður. Loftið var þungt og reykmettað (löngu eftir að Halldór hætti að reykja). Mublur voru stórar og gamlar, gólfteppi slitin og veggir ekki málaðir í háa herrans tíð. Lýsing var í lágmarki, bækur, blöð, en þó einkum hljómplötur lágu út um allt, heilu staflarnir af þeim hvar sem mátti niður setja. Húsið var þó ekki beint drungalegt, a.m.k. ekki þegar Halldór var heima, því hlýleg útgeislun hans sjálfs eyddi öllu slíku. Hann tók hæglátlega, en þó vinalega á móti gestum sínum og leiddi þá inn í aðalstofurnar í syðri enda hússins. Þar á hillu var grammófónninn hans og upptökutæki til að afrita plöturnar á snældur. Til vinstri var borðstofuhlutinn og þar stóð stóra borðstofuborðið með heilum hlöðum af bréfum, blöðum og bókum, en við enda þess var ritvélin, sem Halldór skrifaði allar greinar sínar og hugleiðingar á. Til hægri var „hornið“ við gluggann með sófabekkjunum og litla borðinu, en þangað var gestum boðið til sætis; þetta var eini staðurinn sem var ekki drekkhlaðinn af dóti Halldórs. Yfir horninu slútti stofupálminn, sem hafði staðið þar í áratugi að manni fannst, líklega óvökvaður allan tímann.

  Þegar gest bar að garði slökkti Halldór á grammófóninum. Bauð til sætis og hlustaði á gestinn. Sagði ekki mikið, en skaut þó inn einstaka orði eða athugasemdum nema þegar hann var virkilega aðspurður, sem var oft, því til hans leitaði fólk ekki aðeins í stríðum straumum til að fá upplýsingar um tónlist, heldur var hann líka sálusorgari svo margra, sem áttu í erfiðleikum. Margir spurðu eftir  upptöku með ákveðnu tónverki eða lagi, nú eða flytjenda, og þá stóð Halldór upp og gramsaði aðeins í bunkunum. Það var kraftaverki líkast að hann vissi alltaf upp á hár hvar allt var í þessum bunkum, og að vörmu spori var viðkomandi kominn með plötuna í hendur og hún síðan sett á fóninn. Snemma næsta morgun var snælda með afritun af plötunni sett inn um bréfalúgu gestsins. Málið afgreitt, enginn hægagangur þar!

  En meira um húsið sjálft. Það virtist gríðarstórt. Fyrir utan stofurnar og eldhúsið  í suðurendanum var mjög stór skrifstofa föður hans í norðurenda hússins og þar inn af læknastofa hans og svo biðstofa með sérinngangi. Upp úr holinu gekk mjög langur stigi í sveig upp á loftið þar sem voru svefnherbergin, 4- 5 talsins. Þar uppi voru ótalmargir skápar og hillur, sem svignuðu undan hljómplötum Halldórs, einnig hrúgur af tónlistartímaritum á borðum og stólum, en í innsta herberginu til suðurs var svefnherbergi Halldórs sjálfs. Þar voru hljóflutningsgræjur í miklu úrvali við fótagafl gamla rúmsins hans, það var einkum í svefnherberginu, sem einsemd Halldórs varð mér hvað ljósust, hann var þar ennþá drengurinn, sem hafði átt drauma, sem ekki rættust. Það mátti líka glögglega sjá í geymslunni í risinu þar sem tvö  leiktjaldamódel, sem Halldór hafði smíðað í æsku, stóðu illa farin og umkomulaus.

  En vissulega var Halldór ekki alltaf í húsinu. Hann var á sífelldum ferðalögum út í heim þar sem hann átti marga vini, ekki síst meðal tónlistarmanna. Hann var í góðu vinfengi við marga, en einkum má nefna franska ljóðasöngvarann Gerard Souzay, hina hollensku Elly Ameling og svo meðleikara þeirra beggja, bandaríska píanóleikarann Dalton Baldwin, en öll komu þau til Íslands og héldu tónleika og námskeið fyrir tilstilli Halldórs. Þau voru „öll náttúrulegir listamenn“, þ.e. að Halldórs mati varð persóna þeirra ekki skilin frá list þeirra, þau töluðu frá hjartanu, sem var það sem Halldór lagði mesta áherslu á, hvort sem viðkomandi var heimsfrægur eins og þau – eða bara að útskrifast frá litlum tónlistarskóla á Íslandi. Síðustu ár sín fór Haldór gjarnan til Bandaríkjanna til að heimsækja gamla vini; Jimmy Shoemade, sem var raddþjálfari (coach) í New York og Francis Holden, sem var vinkona hans og aðstoðarkona þeirrar söngkonu sem Halldór hafði litið hvað mest upp til, Lotte Lehmann, sem var  ein skærasta söngkona heims millli stríða og lagði m.a. bæði Vínarborg og New York að fótum sér, jafnt í ljóðasöng sem í óperum. Hún bjó með Francis í Santa Barbara í Kalíforníu á ævikvöldi sínu og þangað heimsótti Halldór oft og tíðum Francis vinkonu sína, sem tengdi hann beint við Lotte, stjörnuna sína.

  Af öðrum söngvurum, sem Halldór hélt mest upp á, má nefna Mariu Jeritza, sem Halldór sá ungur í Vínarborg og svo Jarmilu Novotna, sem Halldór kynntist líka í Vínarborg. Þær voru báðar gullfallegar og sungu eins og englar. Örlögin höguðu því svo til að Haldór sat eitt sinn á bekk á torgi í New York og var að borða samloku, þegar glæsileg eldri kona settist við hlið hans. Hallldór áttaði sig þá á að þar var komin sjálf Jarmila Novotna. Hann varð vinur hennar síðan og átti áritaða mynd af henni, sem hann bar alltaf nálægt sér.

  Plötusafnið

  Halldór safnaði ekki plötum. Í öllu falli ekki eins og fólk safnar steinum, grösum eða uppstoppuðum fuglum. Það var engin regla í því hvernig Halldór keypti sér plötur. Hann fór bara af stað út í plötubúð, hvar í heiminum sem var, og keypti sér þær plötur, sem hann langaði í. Ekki þær sem vantaði í safnið. Nei, þær sem hann langaði til að heyra; verk eða flytjandi, skiptir ekki máli, bara eitthvað sem honum fannst spennandi og langaði til að heyra, helst aftur og aftur, helst til að geta miðlað því með öðrum. Þess vegna er plötusafn hans svo einstakt og um leið svo persónulegt. Það er ekki „safn“.  Það er vitnisburður um ástríðu, um mann sem gat ekki lifað án tónlistar og alls ekki án söngs.

  Halldór hafði litla sem enga reglu um plötusafn sitt, sem þegar upp var staðið eftir andlát hans nam  rúmlega tíu þúsund plötum. Plöturnar voru alltaf tiltækar, hvort sem það var í stöflunum á gólfinu, stólunum, borðunum eða í skápunum. Hann vissi alltaf hvar þær voru, alveg eins og góð móðir veit allt um börn sín. Og hann deildi þeim með sér til allra sem vildu.

  Hann ferðaðist víða og alls staðar keypti hann plötur. Þess vegna voru 50 ferðatöskur í kjallaranum hans þegar hann lést. Hann fór út með eina og kom heim með tvær, sú nýja var undir plöturnar. Reyndar gilti þetta líka um allar vekjaraklukkurnar, sem fundust hjá honum. Hann keypti sér nýja í hverri borg, en skildi eftir heima þegar hann hélt af stað í næstu ferð. Fimmtíu vekjaraklukkur – án þess að vera að safna þeim! Eða gjaldeyrinn. Fyrir tíma kreditkortanna varð maður að fá seðla til að bjarga sér á erlendri grund. Þegar heim var komið voru setti fólk peningana í skúffu til að taka þá með í næstu ferð. En ekki Halldór. Hann setti sinn gjaldeyri ofaní plastpoka og pokann inn í skáp eða skúffu og gleymdi svo hvar það var fyrir næstu ferð. Eftir andlát hans fundu frænkurnar gjaldeyri í nær hverjum skáp og skúffu sem þær opnuðu – í plastpoka! Glás af peningum.

  Halldór ánafnaði Listaháskóla Íslands plötusafn sitt, hús og aðra eigur, sem var líka glás af peningum. Fyrir þá var sjóður hans stofnaður, sem hefur það að markmiði að varðveita plötusafn hans, verðlauna unga og efnilega tónlistarmenn og að styrkja Tónlistarbókasafn LHÍ.

  Halldór

  Halldór var einstakur maður á svo margan hátt að engin orð fá alveg lýst honum. Þegar hann lést á líknardeild Landakotsspítala, þar sem faðir hans var eitt sinn yfirlæknir, vorum við nokkrir vinir hans við sjúkrabeðið. Í blálokin fór ég að fikta við dótið á borðinu hans og fann þar geisladisk, sem Halldóri hafði nýlega verið gefið með japönskum kontratenór (Yoshikatzu Mera). Ég setti diskinn í tækið og þá hljómuðu svo undurfagrir tónar ljóða Richards Strauss.  Einmitt þegar Halldór gaf upp öndina var sungið úr Morgen: „Und Morgen wird die Sonne wieder Scheinen“. Á þeirri stundu skutust sólargeislarnir sig fram úr skýjunum og lýstu upp stofuna. Þetta var falleg stund, ójarðnesk og ógleymanleg. Eins og Halldór sjálfur!

   

 • Viðtal Hauks Inga Jónassonar við Halldór Hansen

 • Greinar úr Morgunblaðinu um Halldór Hansen

 • Minningargreinar um Halldór Hansen