Automatic translation by Google Translate.We cannot guarantee that it is accurate.

Skoða vefinn á Íslensku

Útskriftarsýning bakklárnema í arkitektúr, hönnun og myndlist lifir áfram í þrívídd

  • 29.maí 2024

Í síðastliðinni viku lauk sýningunni Glitský, útskriftarsýningu nemenda í bakkalárnámi í arkitektúr, hönnun og myndlist sem haldin var í Listasafni Reykjavíkur, Hafnarhúsi. Sýningin er með fjölsóttustu sýningum ár hvert hjá Listasafni Reykjavíkur og árið í ár var engin undantekning þar sem hana sóttu hátt í 8000 gestir í heildina, þar af vel á annað þúsund á sjálfan opnunardaginn. Á sýningunni voru sýnd útskriftarverk tilvonandi arkitekta, hönnuða og myndlistarmanna og voru sýnendur 76 talsins.

Í ávarpi Kristínar Eysteinsdóttur, rektors Listaháskóla Íslands við opnun sýningarinnar kom meðal annars fram að “glitský eru samtal milli fegurðar og eyðileggingar, Glitský innihalda togstreitu andstæðra afla. Litadýrð glitskýja er mjög greinileg, þau eru böðuð sólskini í myrkri. Fegurð þeirra er óumdeild en undir yfirborði þeirra krauma hættuleg efni. Glitský beygja sólarljósið, breyta skynjun okkar og það er einmitt það sem nemendur okkar gera hér í dag. Afhúpa ný sjónarhorn og fella tjöld raunveruleikans.”

Við opnun sýningarinnar fluttu einnig ávörp safnstjóri Listasafns Reykjavíkur, Ólöf Kristín Sigurðardóttir, sem og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, Háskóla-, iðnaðar og nýsköpunarráðherra.

Nemendur sýndu verk sín þar sem þau meðal annars fengust við að endurskilgreina kynslóðahúsið, skoða djöflavæðingu á náttúrulegum fyrirbærum, rannsaka hvort hægt sé að búa til hátískufatnað úr íslenskri ull án þess að koma nokkurntíman nálægt saumavél, gera tilraunir með nýja tækni til sjónrænnar miðlunar og leita að fegurðinni í ógurleika samtímans. Verkefnin endurspegla nám, rannsóknir og listsköpun þeirra á síðustu árum. Útskriftarnemendurnir takast á við áskorarnir okkar daga – ljós og myrkur, kulda og hlýju – og útkoman boðar tíðindi.

Í ár fékk Listaháskóli Íslands að gjöf frá Hermanni Valssyni þrívíddarskönnun á sýningunni og er fólk hvatt að skoða hana í þrívídd eða sem sýndarveruleika.

Kristín Eysteinsdóttir og Hermann Valsson.