Automatic translation by Google Translate.We cannot guarantee that it is accurate.

Skoða vefinn á Íslensku

Húsfylli á kvikmyndahátíð LHÍ í Bíó Paradís

  • 6.júní 2024

Kvikmyndahátíðin Filma fór fram í Bíó Paradís dagana 29.-30. maí. Hátíðin er sú fyrsta sem kvikmyndalistadeild Listaháskóla Íslands stendur fyrir en verður hér með fastur liður í lok hvers skólaárs. Það er óhætt að segja að frumraunin hafi heppnast einstaklega vel en fjölbreytt kvikmyndaverk nemenda voru sýnd fyrir fullum sal af fólki á þremur sýningum. Kvikmyndalistadeild LHÍ hóf starfsemi fyrir tveimur árum en nemendur sem stunda þar nám eru nú 22 talsins. Þá er von á þriðja árgangi deildarinnar í haust.

Fjölbreytt og framandi dagskrá

Kvikmyndahátíðin Filma er fyrst og fremst uppskeruhátíð kvikmyndalistadeildar  Listaháskóla Íslands þar sem nemendur kynna afrakstur skólaársins. Hátíðin er unnin í samstarfi við nemendur sem taka virkan þátt í mótun, framkvæmd og kynningu verkefnisins.

Eins og fram hefur komið voru sýningar hátíðarinnar þrjár talsins en alls voru 26 verkefni á dagskrá. Fyrsta sýning var helguð lokaverkefnum nemenda á 1. ári, á annari sýningu voru sýnd valin verk nemenda á 2. ári  og að lokum lokaverkefni nemenda á 2. ári á þeirri þriðju.

Verkefnin voru afar fjölbreytt og framandi og úr hinum ýmsu flokkum allt frá heimildarmyndum yfir í hrollvekjur. Hér til hægri má sjá stiklur úr verkefnum nemenda í ár.

 

FILMA 2024

Fjöldi gesta fór langt fram úr væntingum og stemningin í Bíó Paradís engu lík. Ljósmyndarinn Eygló Gísladóttir fangaði stemninguna og nokkur falleg augnablik en myndir frá hátíðinni má sjá hér að neðan. Við þökkum Bíó Paradís fyrir samstarfið og óskum nemendum og starfsfólki kvikmyndadeildar innilega til hamingju með árangurinn og stórglæsilega kvikmyndahátíð.