Dagur Þorgrímsson tenór heldur útskriftartónleika frá tónlistardeild Listaháskóla Íslands, í Salnum, Kópavogi, sunnudaginn 26. nóvember kl. 20.

Meðleikari Dags á tónleikunum er Helga Bryndís Magnúsdóttir píanóleikari.



Á efniskráinni eru íslensk sönglög, óperu aríur og ljóðatónlist frá Þýskalandi og Skandinavíu svo eitthvað sé nefnt.



Aðgangur er ókeypis og allir hjartanlega velkomnir! 



Dagur Þorgrímsson tenór er fæddur á Akureyri 1. janúar 1993. Hann hóf píanónám 6 ára gamall í Tónskóla Neskaupstaðar og var fyrsti kennari hans Ágúst Ármann Þorláksson. Dagur hélt áfram tónlistarnámi við Tónlistarskóla Hafralækjarskóla í Aðaldal, fyrst píanónámi undir leiðsögn Juliet Faulkner en síðar gítarnámi fyrst hjá Jaan Alavere en aðallega hjá Pétri Ingólfssyni.
En söngurinn heillaði alltaf og haustið 2004 hóf Dagur söngnám sitt hjá Robert Faulkner en kennarar hans næstu árin voru einnig Juliet Faulkner, Tuuli Rähni og Gróa Hreinsdóttir.
Sautján ára hóf Dagur söngnám við Tónlistarskólann á Akureyri og var aðalkennari hans þar Michael Jón Clarke. Að loknu stúdentsprófi og miðprófi í söng þreytti Dagur inntökupróf í Listaháskóla Íslands. Kennarar hans þar hafa verið Hanna Dóra Sturludóttur Kristinn Sigmundsson, Ólöf Kolbrún Harðardóttur, og Þóra Einarsdóttir auk fjölda gestakennara sem heimsótt hafa söngdeild LHÍ og leiðbeint nemendum.
Dagur fór með hlutverk Tamínós í uppsetningu söngdeildar Tónlistarskólans í Kópavogi á Töfraflautunni vorið 2015. Þá hefur hann starfað með nokkrum kórum síðustu ár; Kammerkór LHÍ, Dómkórnum og Kór Langholtskirkju, þar sem hann söng á tónleikum ungra einsöngvara kórsins síðasta vor. Nú um stundir syngur hann með Kammerkór Seltjarnarneskirkju og Schola Cantorum og mun taka þátt í frumfluttningi á Eddu II e. Jón Leifs í vor.