Er það tveggja ára samstarfsverkefni milli átta
tónlistarháskóla um að þróa námsefni í tónlistarkennslu á háskólastigi og
aðlaga það að hlutverki tónlistarmanna nútímans. Þróunin verður byggð á
námsefni meistaranámsins Sköpun, miðlun og frumkvöðlastarf (NAIP), sem er
samstarf fjögurra tónlistarháskóla í Evrópu: Listaháskóla Íslands, Kungliga
Musikhögskolan í Stokkhólmi, Koninklijk Conservatoire í Haag og Prince Claus
Conservatoire í Groningen. Auk fyrrnefndra skóla taka eftirfarandi skólar þátt
í verkefninu; Guildhall School of Music and Drama í London, Musikkhøgskolen í Osló, Metropolia í Helsinki, Universität für Musik und darstellende Kunst í Vín
ásamt háskólanum í Singapore. Association Européenne des Conservatoires,
Académies de Musique et Musikhochschulen er einnig samstarfsaðili og gegnir
kynningar- og matshlutverki í verkefninu.

Auk þróun námsefnis og kennsluaðferða verða viðburðir
fyrir nemendur og kennara einnig hluti af verkefninu. Í þessu felst sameiginlegt
námskeið fyrir nemendur allra skólanna, starfsþróunarnámskeið fyrir kennara og
námskeið sem byggist á samstarfi við menningarstofnanir.

Listaháskóli Íslands stýrir verkefninu og hefur ráðið
Þorgerði Eddu Hall sem verkefnastjóra. Alma Ragnarsdóttir, forstöðumaður
alþjóðaskrifstofu LHÍ gegnir hlutverki fjármálastjóra, en Martin Prchal,
aðstoðarrektor Konunglega tónlistarháskólans í Haag er formaður stýrihóps
verkefnisins. Fyrstu vinnufundir verkefnisins verða í Haag í febrúar.

Verkefnið byggir á þeirri sýn að tónlistarheimurinn sé síbreytilegur.
Starfsumhverfi hans er byggt á samskiptum og samstarfi fjölmargra einstaklinga,
fyrirtækja og stofnana, þar sem listamaðurinn er í senn höfundur, flytjandi og
framleiðandi. Námsbrautin Sköpun, miðlun og frumkvöðlastarf (NAIP) er sniðin
fyrir tónlistarmenn sem vilja móta sinn eigin starfsgrundvöll og taka að sér
leiðtogahlutverk. Unnið er að samstarfsverkefnum milli ólíkra tónlistarstíla, listgreina
og hvers konar hópa samfélagsins með það að markmiði að efla með þeim áræði og
dug til að gerast leiðtogar á sínu sviði og nálgast nýja áheyrendur.
Kjarnagreinar þessa náms verða skoðaðar og þróaðar í samvinnu við sjö aðra
tónlistarháskóla. Litið verður til bæði inntaks námsins sem og kennsluaðferða.
Lykilhugtök í þessu samhengi eru sköpun og miðlun, frumkvöðlastarf, nýjar
aðferðir í tónlistarflutningi, samfélagsleg tenging gegnum tónsköpun, tónlistariðkun
með fjölbreytilegum samfélagshópum, þróun starfsemi tónlistarmanna sem
"portfolio" listamanna, samskipti flytjenda og áhorfenda, listræn
stjórnun, leiðtogahæfni, jafningjamat, starfendarannsóknir o.fl.  Stefnt
er á að kynna verkefnið og niðurstöður þess á ársfundum AEC, samtaka
tónlistarháskóla Evrópu, með það að markmiði að nýjar námsgreinar skapi sér
sess og verði hluti af allri tónlistarmenntun á háskólastigi í Evrópu.

Nánari upplýsingar um meistaranámið í Sköpun, miðlun og
frumkvöðlastarfi má nálgast hjá , fagstjóra NAIP eða á .

Meðfylgjandi mynd er tekin á námskeiði NAIP meistaranámsins í Stykkishólmi s.l. haust þar sem saman komu liðlega fimmtíu nemendur og kennarar frá 9 löndum. Ljósmyndina tók breski kvikmyndagerðarmaðurinn Cristopher Daniels en hann var einn af leiðbeinendum á námskeiðinu.