Peysa með öllu, fyrir alla

Lenging líftíma textíls með aðferðum hönnunar, handverks og kennslu

 
Í þessu verkefni ígrunda ég reynslu mína og samspil hlutverka minna sem textíl- hönnuður, listakona og kennari þar sem ég styðst við aðferðir starfendarannsókna.
 
Útgangspunkturinn er verkefnið Peysa með öllu, fyrir alla sem ég vann á opinni vinnustofu og smiðjum á Hönnunarsafni Íslands, á tímabilinu janúar til júní 2021.
 
Markmiðið með þessari ritgerð er að ígrunda mikilvægi kennslu, miðlunar og opins samtals þegar kemur að sjálfbærum nálgunum í textíl- framleiðslu og neyslu. Nútíma neysla okkar á textíl og stóriðjan sem henni fylgir er útgangspunkturinn í framkvæmd verkefnisins, þar sem unnið var með ósöluhæfan efnivið frá fatasöfnun Rauða Krossins á Íslandi og honum gefið framhaldslíf í skapandi fataviðgerðar smiðjum.
 

 

Í fyrsta kafla ritgerðarinnar fer ég yfir mitt samband við textíl, bæði í persónulegu lífi og í starfi mínu sem textílhönnuður. Þar ígrunda ég reynslu mína í námi og starfi þar sem ég skoða ferlið sem leiddi mig út í að miðla verkefnum mínum áfram í fræðslu og kennslu.
 
Í fræðikafla ritgerðarinnar tek ég fyrir vandamálið sem fylgir nútíma textílframleiðslu. Þar fer ég yfir áhrif framleiðsluferlisins, samverutíma okkar með textílnum og hvar hann endar. Í kaflanum skoða ég lausnir eins og fataviðgerðar smiðjur og hvernig nálgun samfélagslista og félagslegrar hugsmíðahyggju nýttist mér við skipulag og útfærslu smiðjanna. Einnig ígrunda ég valið á efnivið í textílkennslu í skólakerfinu og mikilvægi þess að innleiða þangað notkun á notuðum textíl.
 
Í lokakafla ritgerðarinnar fer ég yfir tímabilið á Hönnunarsafni Íslands, hvernig ég skipulagði opnu vinnustofunnar og skapandi fataviðgerðarsmiðjurnar, og geri það með því að rýna í rannsóknardagbók sem ég hélt á tímabilinu og ljósmyndum sem ég tók á smiðjunum.
 
Niðurstöður rannsóknarinnar varpa fram mikilvægi þess að deila þekkingu sinni og hvernig hlutverk kennarans getur aukið gildi og möguleika starfsins sem ég vinn sem textílhönnuður og listakona. 

 

adalmynd_yrurari_01.jpeg

 

Ýr Jóhannsdóttir
yr [at] yrurari.com
www.yrurari.com
Leiðbeinandi: Gunndís Ýr Finnbogadóttir
20 ECTS
2021