,,Við erum að gera svona tónlist“
Tónlist í leikskóla – liður í valdeflingu barna

Lokaverkefni mitt úr kennslufræðum í listkennsludeild er sprottið upp úr reynslu minni að kenna tónlist í leikskóla og út frá vangaveltum mínum um hvað teljist sem valdeflandi, umbreytandi nám. Markmið verkefnisins var að kenna tónlist út frá forsendum barna; í gegnum sköpun og leik með þá von að stundirnar yrðu gefandi og valdeflandi fyrir börnin. Sú rannsóknarspurning sem lá til grundvallar var hvort tónlist í leikskóla geti verið liður í valdeflingu barna. 

Í niðurstöðum verkefnisins má sjá að tónlistarstundir í leikskóla geti verið staður þar sem börn fá rödd, þau upplifi að þau tilheyri hópnum og þar fái þau rými fyrir sköpun og leik gegnum samvinnu á jafningjagrundvelli. En það gefur til kynna að tónlistarstundirnar séu valdeflandi vettvangur, svo lengi sem börnum er gefið nægt frelsi og kennarinn sleppir tökum á einhvers konar áherslu á sýnilegan árangur. Því meira frelsi sem börnunum var veitt, því meiri sköpunargleði og almenna vellíðan mátti greina í tónlistarstundunum.