Aukið næmi fyrir umhverfinu og innblástur í skapandi ferli og námsefni

 
 
Þörfin fyrir skapandi vinnubrögð og gagnrýna nálgun hefur líklega aldrei verið brýnni en nú. Komandi kynslóðir þurfa verkfæri til að takast á við ýmis vandamál sem steðja að, og verða ekki leyst án skapandi hugsunar.
 
Í þessari ritgerð kanna ég hvernig má nota aðferðir sjónrænnar rannsóknarvinnu og skoðun á umhverfi og náttúru sem innblástur í námi.
 
Rannsóknarvinnan er grunnur að kveikjum og hugmyndavinnu í skapandi skólastarfi, en mörgum hefur reynst erfitt að innleiða skapandi þætti í skólastarf, nú þegar sköpun er orðinn einn af grunnþáttum menntunar. Kveikjan er fyrsti þáttur skapandi ferlis, en tilgangur hennar er að finna eigin áhuga, og síðari stig ferlisins byggja á henni.
 
Áhugahvöt gegnir mikilvægu hlutverki í námi, en hún hjálpar okkur að skilja okkur sjálf, um leið og námið verður spennandi þegar við lærum út frá eigin forsendum. Einstaklingsmiðað nám býður upp á tækifæri til þess að njóta, sem minnkar líkur á skólaleiða til muna. Velt er upp hvaða reynsla sé í raun menntandi, en viðfangsefni má setja fram á ólíka vegu.
 
 
Í skapandi skólastarfi er mikilvægt að gefa sér tíma og rúm fyrir rannsóknir, tilraunir og umræður. Samfella ætti að vera í námi en þannig byggja nemendur við fyrri reynslu og þekkingu.
 
Í síðari hlutanum, hugmyndabókinni Sjónræn rannsóknarvinna: kveikjur fyrir skapandi skólastarf eru settar fram tillögur að skapandi verkefnum, sem fara að miklu leiti fram í grenndarnámi. Markmið þeirra er að nemendur læra að njóta hversdagsleikans, endurskoði gildismat sitt, og átti sig á því að þau geti haft áhrif á heiminn, eða í það minnsta á sig sjálf, en það er ekkert smáræði.
 
21.jpg
 
22.jpg
 
vigdishlif [at] gmail.com
Leiðbeinendur: Ásthildur B. Jónsdóttir og Ellen Gunnarsdóttir
2017