VELFERРer opin fyrirlestrarröð listkennsludeildar Listaháskóla Íslands skólaárið 2021-2022
 
Fyrirlestrarröðin fer fram í LHÍ Laugarnesi, Laugarnesvegi 91.
Fjórði fyrirlestur er þriðjudaginn 5. apríl kl. 15-16, í fyrirlestrarsal L193
 
Fyrirlesari: Ingimar Ólafsson Waage, lektor og fagstjóri við listkennsludeild
 

Velferð, farsæld og hið góða líf: Ævilangt ferðalag með listir í farteskinu

 
Á síðustu árum hefur aukin áhersla á siðferðilega menntun í skólastarfi vakið upp spurningar um hvaða leiðir séu færar til að fjölga tækifærum nemenda til að glíma við slík viðfangsefni. Samkvæmt kenningum dygðasiðfræðinnar er siðferðilegur þroski ævilangt ferðalag og vegur þar þungt hæfnin til að hugsa gagnrýnið um siðferðileg álitamál ásamt því að veita tilfinningum eftirtekt í því samhengi. Reynsla er álitin vera undirstaða siðferðilegs þroska og því er nauðsynlegt að börn og ungmenni fái tækifæri til að öðlast reynslu af þeim toga en Aristóteles minnti oft á mikilvægi góðra venja: til þess að þroska með sér hugrekki eða heiðarleika þarf viðkomandi að fá tækifæri til að sýna dygðuga breytni. Þar skiptir mestu að viljinn til réttrar breytni komi innan frá, frjáls undan ytri stýringu og valdboði. 
 
Ingimar hefur á undanförnum árum rannsakað möguleika myndmenntakennslu í þessu tilliti en fræðafólk allt frá Aristótelesi fram á okkar daga hefur bent á mikilvægi listanna hvað þetta varðar. Hér vega þyngst eiginleikar listanna að geta verið eftirlíking af veruleikanum sem getur hjálpað einstaklingnum að setja sjálfan sig í spor annarra, eða að máta sig við ókunnar aðstæður.
 
Í fyrirlestrinum mun Ingimar segja frá helstu niðurstöðum doktorsrannsóknar sinnar á gildi listgreinakennslu fyrir samræður og skilning á siðferðilegum álitamálum. Rannsóknin fólst í átta vikna íhlutunarverkefni þar sem heill árgangur í stórum grunnskóla í tók þátt í að skapa listaverk með valdar dygðir að leiðarljósi auk heimspekilegra samræðna um listaverk. Ingimar aflaði m.a. gagna með fyrir- og eftirprófum sem byggðust á textum nemenda um valin listaverk. Textarnir voru greindir með greiningarlykli sem var þróaður sérstaklega fyrir rannsóknina. Að auki safnaði Ingimar saman þeim listaverkum sem urðu til á meðan íhlutuninni stóð og greindi þau sérstaklega. Gagnagreiningin sýndi glöggt að listir og skapandi sjónræn verkefni í skólastarfi eru ómetanlegur vettvangur fyrir opnar og hreinskiptar pælingar um siðferðileg álitamál af ýmsum toga.
 
Ingimar Ólafsson Waage nam myndlist við Myndlista- og handíðaskóla Íslands og lauk síðar framhaldsnámi í myndlist frá École Nationale des Beaux-arts de Lyon. Hann lauk diploma til kennsluréttinda frá Kennaraháskóla Íslands og síðar meistaraprófi í heimspeki og félagsfræði menntunar frá Háskóla Íslands. Ingimar stundar nú doktornám í menntavísindum við Háskóla Íslands. Rannsóknaáhugi Ingimars snýr að dygðasiðfræði, mannkostamenntun, myndlist og myndlistarkennslu, gagnrýnni hugsun, lýðræði og heimspekilegri samræðu í skólastarfi. Meðal kennslugreina hans í listkennsludeild eru almenn kennslufræði, heimspeki menntunar og kennslufræði sjónlista. 
 
ingimar.jpg
 

 

 
VELFERÐ Næstu fyrirlestrar
 
29. mars kl. 15-16: Dr. Guðbjörg R. Jóhannesdóttir, lektor
5. apríl kl. 15-16: Gunndís Ýr Finnbogadóttir, lektor og fagstjóri sjónlista