Útskriftartónleikar Steinunnar verða 24. maí klukkan 20:00 í Salnum í Kópavogi og eru allir hjartanlega velkomnir. Flutt verða fjölbreytt lög sem spanna allt frá 16. öld til 2017. Ásamt henni munu koma fram þau Helga Bryndís Magnúsdóttir píanóleikari og Óskar Magnússon gítarleikari.

 

Listaháskólinn og Salurinn, Kópavogi eru í samstarfi vegna Tónleikaraðar Útskriftarhátíðar Listaháskólans og fara fjöldinn allur af tónleikum fram þar.

 

Um Steinunni:

Undir Hvannadalshnjúk, hæsta tindi landsins, ólst Steinunn Björg Ólafsdóttir upp hjá foreldrum sínum sem búa í Svínafelli í Öræfum. Í litlu samfélagi var lítið um tónlistarkennslu en hún sótti í þá visku sem henni bauðst, bæði frá þáverandi organista, Sigurgeiri Jónssyni, og frá systrum sínum sem voru eldri og lærðu báðar á píanó. Loksins kom að því að Steinunn myndi þurfa að sækja frekara nám til Hafnar og fór hún því í heimavist 13 ára gömul. Þar hóf hún formlega tónlistarnám sitt í Tónskóla Hornafjarðar þar sem hún lærði á píanó undir handleiðslu Guðlaugar Hestnes rétt eins og eldri systurnar. Einnig söng hún alt rödd í unglingakórnum Vox Lumine undir stjórn Kristínar Jóhannesdóttur organista í Hafnarkirkju.

Á unglingsárunum fiktaði Steinunn aðeins við popp og rokk lög og blómstraði svo 16 ára gömul þegar hún gekk í kór Fjölbrautaskóla Suðurlands undir stjórn Stefáns Þorleifssonar tónlistarmanns. Þar voru flutt allskyns söngleikja- og popplög sem hentuðu vel fyrir djúpu og poppuðu alt röddina hennar.

19 ára flutti hún til Reykjanesbæjar og fór þá að læra söng hjá Dagnýju Jónsdóttur söngkennara í Tónlistarskóla Reykjanesbæjar. Þar leist henni varla á blikuna þegar Dagný tilkynnti henni að hún væri alls ekki með djúpa alt rödd heldur með bjarta og háa sópran rödd. Eftir að Steinunn þorði loksins að opna munninn og láta almennilega í sér heyra kláraði hún miðnám þar, enda kom í ljós að henni fannst bara svolítið gaman að fara upp á háu tónana. Samhliða því námi söng hún með Kvennakór Suðurnesja undir stjórn Dagnýjar Jónsdóttur og tók þátt í Jesus Christ Superstar tónleikum með Kirkjukór Keflavíkur undir stjórn Arnórs Vilbergssonar. Arnór Vilbergsson setti einnig saman sönghópinn Vox Felix sem hún syngur með enn þann dag í dag. Einnig tók hún þátt í uppsetningu á óperunni Évgení Onegin í Reykjanesbæ undir stjórn Jóhanns Smára Sævarssonar.

Eftir stúdentsútskrift frá Fjölbrautaskóla Suðurnesja lá leiðin í Listaháskóla Íslands. Þar hefur hún lært klassískan söng undir handleiðslu Þóru Einarsdóttur, Kristins Sigmundssonar og Ólafar Kolbrúnar Harðardóttur og rytmískan söng undir handleiðslu Bjarkar Jónsdóttur. Hún hefur tekið þátt í uppsetningum á óperusenum innan söngdeildarinnar og sungið í allskonar verkum og kórum innan skólans og utan. Í vor mun hún útskrifast úr Listaháskólanum með B. Mus. gráðu í söng.

Það má segja að Steinunn hafi komið víða við og þannig finnst henni best að hafa það. Það er allt henni að skapi að syngja Bohemian Rhapsody með Queen einn daginn og Messu í c-moll eftir Mozart annan um leið og hún æfir I will always love you með Whitney Houston og lærir textann við La Bonne Cuisine eftir Bernstein og líklega mun hún halda því áfram hvað sem tekur við að námi loknu.