Ingunn Huld Sævarsdóttir, útskriftarnemi úr NAIP (Sköpun, miðlun og frumkvöðlastarfi) heldur útskriftartónleika í Safnahúsi við Hverfisgötu laugardaginn 21. apríl klukkan 15. Aðgangur ókeypis og allir velkomnir.

Á tónleikunum verða flutt lög og textar Ingunnar Huldar sem hún hefur unnið að í námi sínu. Sönglögin eiga það sammerkt að taka á reynsluheimi kvenna, meðgöngu og fósturmissi, lífi nýgiftrar eiginkonu, umbreytingartímanum þegar börnin flytja að heiman og áfram mætti telja. Tónverk sem fjallar um áskoranir lífsins mun einnig verða frumflutt á tónleikunum sem og verkið Bið sem skrifað er fyrir rödd og óhefðbundið hljóðfæri.

Um Ingunni Huld:

Ingunn Huld hóf þverflautunám níu ára gömul og byrjaði tíu ára gömul í Skólahljómsveit Mosfellsbæjar og í Skólakór Varmárskóla þar sem hún öðlaðist dýrmætt tónlistaruppeldi. Hún útskrifaðist með B.Ed. í grunnskólakennarafræðum með tónlist og leiklist sem aðalkjörsvið árið 2009. Vorið 2013 lauk hún burtfararprófi í jazzsöng frá Tónlistarskóla FÍH.

Í lok árs 2015 gaf hún út plötuna Fjúk með ellefu frumsömdum lögum á íslensku.

Í sumar stefnir hún á útskrift frá Listaháskóla Íslands af brautinni Sköpun, miðlun og frumkvöðlastarf (NAIP). Áherslur hennar í náminu hafa verið á laga- og textasmíðar. 

Flytjendur:

  • Ingunn Huld Sævarsdóttir, söngur, gítar, píanó, þverflauta
  • Árni Magnússon, rafbassi
  • Páll Cecil Sævarsson, trommur og hljóðgervill
  • Héðin Ziska Davidsen, gítar
  • Sigurður Halldórsson, selló
  • Anna Bergljót Böðvarsdóttir: Bakrödd