Laugardaginn 28.apríl, klukkan 21:00, er þér boðið á útskriftartónleika Ingu Magnesar Weisshappel, en hún útskrifast með BA gráðu í tónsmíðum frá Listaháskóla Íslands nú í vor.

Inga Magnes byrjaði ung að fikra sig áfram i tónlist. Árið 2001 hóf hún píanónám við Suzuki skóla Reykjavíkur en færði sig síðar í Tónlistarskóla FÍH. Eftir útskrift úr menntaskóla fluttist hún til Danmerkur þar sem hún sótti diplómanám í raftónlist en ári síðar kláraði hún svo fornám í sjónlist við Myndlistarskóla Reykjavíkur. Við tók erfitt val um háskólanám en bæði tónlistarbraut og myndlistarbraut samþykktu umsókn hennar um inngöngu. Tónsmíðar urðu fyrir valinu en síðan þá hefur ávallt mátt sjá ástríðu hennar á myndlist bregða fyrir. 

Inga leggur mikla áherslu á rými og upplifun og verk hennar einkennast af miklum sjónrænum túlkunum. Í nær öllum hennar verkum má sjá myndbönd og sjónræna þætti sem hún vinnur sjálf samhliða tónlistinni. Hún hefur einnig samið tónlist fyrir ýmsa ólíka miðla, þar á meðal kvikmyndir, leikhús og dansverk. Í haust mun hún svo frumflytja sinfóníuverk á UNM tónlistarhátíðinni í Bergen. 

Tónleikarnir innihalda eitt langt listaverk þar sem ýmsir ólíkir miðlar listsköpunar koma saman, en hún fær stóran hóp af flytjendum með sér í lið. 

Flytjendur:
Söngur: Kór Listaháskóla Íslands
Fiðla: Þórhildur Magnúsdóttir
Víóla: Katrín Arndísardóttir
Selló: Sara Sólveig Kristjánsdóttir
Kontrabassi: Ingvi Rafn Björgvinsson
Flauta: Sigríður Hjördís Indriðadóttir

Tónleikarnir eru haldnir í Læknaminjasafninu á Seltjarnarnesi. Leiðin verður merkt að einhverju leyti en mælt er með því að leggja tímanlega af stað þar sem erfitt getur verið að finna húsnæðið. 

Frítt er inn á viðburðinn og allir hjartanlega velkomnir.