Tindátinn Staðfasti, útskriftarverkefni Þorbjargar Roach Gunnarsdóttur verður flutt þann 11. maí klukkan 19:00 í Salnum, Kópavogi. Tónleikarnir eru hluti af Útskriftarhátíð Listaháskóla Íslands 2018 og mun Þorbjörg útskrifast með BA gráðu í skapandi tónlistarmiðlun frá skólanum nú í vor.
 
Þorbjörg hóf nám í skapandi tónlistarmiðlun við Listaháskólann haustið 2015. Hún hefur síðan þá lagt sérstaka áherslu á tónsmíðar í náminu og er því lokaverkefnið hennar tengt því. Hún hefur einnig unnið á frístundaheimili undanfarin ár og haft mikla ánægju af starfinu þar, þar sem hún hefur m.a. sagt mikið af sögum og ævintýrum við góðar undirtektir.
 
Úr varð því að útskriftarverkefnið hennar sameinaði þessa tvo hluti sem hafa einkennt líf hennar undanfarin ár: tónsmíðar og börn. Í útskriftarverkefninu fáið þið að heyra tónverk sem hún samdi fyrir litla sinfóníuhljómsveit og sögumann. Verkið er sérstaklega ætlað börnum og er byggt á ævintýrinu um Tindátann staðfasta eftir H.C. Andersen. Ballerínan og púkinn í sögunni eru færð til lífsins með hjálp hljóðfæranna og klarinettið tekur á sig rödd tindátans. Þorbjörg mun einnig fjalla um hugmyndina í kringum verkið, ferlið og vinnu sína að þessu verkefni

 

 
Flytjendur eru:
Sinfóníuhljómsveit Tónlistarskóla Hafnarfjarðar
Sögumaður: Pétur Eggertsson 
Fagott: Emilía Rán Benediktsdóttir 
Fiðla: Aldís Bergsveinsdóttir 
Víólur: Katrín Arndísardóttir og Steina Kristín Ingólfsdóttir 
Píanó: Anela Bakraqi 
Hljómborð: Anna Þórhildur Gunnarsdóttir 
Slagverk: Örvar Erling Árnason og Andrés Þór Þorvarðarson 

 

Stjórnandi : Ármann Helgason
 
Allir hjartanlega velkomnir :) 
 
Ljósmynd: Leifur Wilberg