Gestur okkar í Þolmörkum 3 er Hrafnhildur Arnardóttir / Shoplifter myndlistarmaður og mun hún fjalla um listaferil sinn og skoða þróun verka sinna síðastliðin 20 ár.

Hrafnhildur Arnardóttir / Shoplifter (f. 1969) er íslenskur myndlistarmaður sem búsett er í New York. Hrafnhildur hefur vakið mikla athygli fyrir verk sín úr náttúrulegu hári og gervihári sem hún notar í gerð skúlptúra, veggverka og innsetninga sem koma inná þemu eins og hégóma, tísku og samtímagoðsagnir. Hrafnhildur var fulltrúi Íslands á Feneyjartvíæringnum árið 2019 með verkinu sínu Chromo Sapiens. Meðal nýjustu verka Hrafnhildar eru einkasýningar í Kiasma – samtímalistasafni Finnlands (2019); Listasafni Íslands (2017); Walt Disney Concert Hall í Los Angeles (2017); og Qagoma, nútímalistasafni Queensland í Ástralíu (2016). Meðal annarra mikilvægra sýningaverkefna hennar má nefna stóra gluggainnsetningu með listahópnum assume vivid astro focus (avaf) fyrir MoMA nútímalistasafnið í New York (2008). Árið 2011 hlaut Hrafnhildur Norrænu textílverðlaunin og heiðursorðu Prins Eugen frá sænsku krúnunni fyrir listrænt framlag sitt til norrænnar textílhefðar.

Fyrirlesturinn hefst kl. 12:15 í Þverholti 11 í fyrirlestrasal A auk þess sem honum verður streymt hér: live.lhi.is. Fyrirlesturinn fer fram á ensku og er opinn öllum. Facebook viðburður.

Skólaárið 2019-2020 fer af stað ný fyrirlestrarröð þar sem allar fimm deildir háskólans og nemendaráð vinna saman. Fyrirlestrarröðin, sem gengur undir nafninu Þolmörk, er tilraun til að opna á samlegðaráhrif milli ólíkra listgreina og skapa þannig þverfaglegan umræðuvettvang fyrir nemendur, starfsfólk háskólans og aðra áhugasama.