Annar fyrirlestur Sneiðmyndar, sameiginlegrar fyrirlestrarraðar arkitektúr- og hönnunardeilda Listaháskóla Íslands, verður haldinn miðvikudaginn 20. október næst komandi.
Fyrirlesturinn fer fram í fyrirlestrasal A, Þverholti 11 klukkan 12:15 – 13:00
 
Um fyrirlesturinn
Í byrjun nóvember kemur út bókin Laugavegur þar sem byggingar- og verslunarsaga aðalgötunnar er sögð í máli og myndum. Í fyrirlestrinum segja höfundarnir, Anna Dröfn Ágústsdóttir fagstjóri fræða við Hönnunardeild og Guðni Valberg arkitekt, frá gerð bókarinnar. Þau fjalla jafnframt um sögu valinna húsa við götuna og gera tilraun til að útskýra hvers vegna Laugavegurinn hefur þróast með þeim hætti sem raun ber vitni.
Bókin er samstarfsverkefni Önnu Drafnar og Guðna, sem er hollnemi LHÍ og einn eigandi arkitektastofunnar Trípólí. Anna og Guðni hafa áður gefið út bókina Reykjavík sem ekki varð (2014) þar sem þau ráku sögu opinberra bygginga í Reykjavík sem í upphafi átti að reisa á öðrum stað eða í annarri mynd en flestir þekkja.
 
2021_sneidmynd_annagudni_a3poster.jpg
 
Ljósmynd af Laugavegi: Borgarskipulag. Ljósmyndasafn Reykjavíkur.
 
 
Sneiðmynd dagskrá haust 2021:
▪️ Miðvikudagur 6. október 2021 Sóley Þráinsdóttir vöruhönnuður og fagstjóri í vöruhönnun

▪️ Miðvikudagur 20. október 2021 Anna Dröfn Ágústsdóttir sagnfræðingur og fagstjóri fræða & Guðni Valberg arkitekt og einn eiganda Trípólí

▪️ Miðvikudagur 10. nóvember 2021 Birna Geirfinnsdóttir grafískur hönnuður og dósent í grafískri hönnun

▪️ Miðvikudagur 24. nóvember 2021 Anna María Bogadóttir, arkitekt og lektor við arkitektúrdeild
 
 
SNEIÐMYND

Öflugt rannsóknarstarf kennara við arkitektúrdeild og hönnunardeild er undirstaða þekkingarsköpunar, hugmyndafræðilegrar endurnýjunar og listrænnar nálgunar sem miðlað er til nemenda í gegnum kennslu og til samfélagsins með þátttöku í ýmsum verkefnum á innlendum og alþjóðlegum vettvangi.

Í fyrirlestraröðinni Sneiðmynd kynna kennarar hönnunardeildar og arkitektúrdeildar eigin rannsóknir og listsköpun og ræða tengsl þeirra við kennslu í deildinni.

Fyrirlestrarnir eru öllum opnir og er fagfólk, nemendur og áhugafólk um hönnun og arkitektúr hvatt til að mæta.

Allir fyrirlestrar fara fram á miðvikudögum kl 12:15 - 13:00 í fyrirlestrarsal A, Þverholti 11.