Útskriftarnemendur myndlistardeildar Listaháskóla Íslands opna sýninguna “Slipperí slúbbí: fyrsta byrtingarmynd dauðans” föstudaginn 27 janúar í Sköpunarmiðstöðinni á Stöðvarfirði. Undafarnar tvær vikur hafa nemendur dvalið í vinnustofudvöl í miðstöðinni og unnið að listsköpun sinni og eru verkin á sýningunni afrakstur þeirrar vinnu.
Sýning er aðeins opin þennan eina dag frá kl: 14:00-18:00.
Öll velkomin!
 
“Hefurðu verið að að velta fyrir þér þeirri óneitanlegu staðreynd að einhvern tíman muntu deyja? Hvernig ætli það hafi verið fyrir fyrsta fólkið að uppgötva dauðann? Nei, ég er bara að spá. Ég hef verið að pæla mjög mikið í dauðanum. Það er svo mikið slipperí slúbbí alls staðar og allavega einu sinni á hverjum degi er ég handviss um að ég sé að upplifa síðustu augnablik lífs míns. Það hefur ekki gerst ennþá. En einn daginn mun það gerast, óháð því hvort það sé tengt slúbbinu eða ekki. Ég hef sjaldan verið jafn þakklátur fyrir mannbrodda.
 
Hjörtun eru full af sandi, sem við stráum á göturnar. Sleipa slúbbíið mun ekki hræða okkur lengur, og hjörtun eru léttari. Þó að við sjáum ekki fram yfir hrjúfan sjóndeildarhringinn, sjáum við að við erum hérna, núna. Óumflýjanlegt offors tímans þeytir okkur áfram í ævintýri sem okkur hafði aldrei órað um. Við gæðum okkur á ávöxtum fræa sem við sáðum áður en við vissum hvað þau myndu verða.
 
Eitt er víst; og það er óvissan.
 
Er líður að þorra gengur þú í gegnum hret og og skafrenning. Kári blæs og púðraður snjórinn litar sjónarsviðið hvítt, fjallgarðurinn sem áður veitti þér skjól og hughreystingu er þér horfinn. Ekkert nema hvíta sjónarsviðið - tómur strigi sem ekki er hægt að mála. Þá svíkja fæturnir þig. Sleipa slúbbið hefur náð þér, þú ferð og þú ferð á flug. Í eitt augnablik ertu þyngdarlaus, í eitt augnablik ertu efnislaus. Þar til höfuð skellur aftur á jörðina og þungi heimsins leggst yfir þig.
 
Þá rifjast upp sagan af djáknanum.
 
"Máninn lýður,
dauðinn ríður;
sérðu ekki hvítan blett
í hnakka mínum,
Garún, Garún?"