SKYGGNI FÁGÆTT - Sjálfsmynd

Í verkinu Skyggni Fágætt, brúa ég bilið á milli þess ósýnilega og sýnilega, hins dulræna, óáþreifanlega, líkamlega, huglæga, sýnilega og ósýnilega. Skilningarvit okkar mótast á fósturstigi og halda áfram að þróast í skynrænu breytingarferli út ævina. Bæði innri og ytri áhrif leiða þessa þróun áfram, líkt og hún sé samofin líkama og sál okkar. Andleg, dulræn, framandi, óútskýranleg, vísindaleg, líffræðileg og manngerð inngrip eiga sinn þátt í skynvitund okkar. Þessi vitund gefur hverri manneskju sitt einstaka sjálf og sín persónulegu sérkenni, hver skynjun er þannig einstök, og ómögulegt er að sýna framá eða sanna hver skynjunin okkar er eða hvaðan hún kemur. Til eru sjónræn frávik sem hafa verið „sönnuð“ vísindarlega og eru læknisfræðilega mælanleg, á sama tíma eru til ákveðin frávik skynjunar sem eru órannsakanleg og ómælanleg. Syneathesia - samskynjun er nafnið á sjaldgæfu afbrigði sjónrænnnar skynvitundar. Sú skynjun sem fylgir þeim skynheimi á sér hvorki upphaf né endi, er endalaus.

Í verkinu Skyggni Fágætt býð ég áhorfandanum að kíkja inn í myndræna útgáfu af mínum eigin skynvíddarheimi sem er bæði óræður og margbreytilegur. Samskynjun er eitt af tilbrigðum skilningarvita minna sem er skylt sjötta skilningarvitinu. Við samskynjun geta skilingarvitin krossast, bókstafir verið í litum, bragð verið af hljóði og rafmögnuð ára hlutanna verið sýnileg. Ég býð áhorfandann velkominn að kanna sjónheim minn í von um að sýningin leiði hann til frekari kynna á eigin skynjun. Í von um að áhorfandinnn upplifi hluta af sinni eigin óræðu en sýnilegu skynjun speglast í gagnvirkum en ósýnilegum spegli samskynjunar okkar.

Jóhanna Margrétardóttir (1973), býr og starfar í Galleri Rammskakkt, Reykjavík. Hún vinnur með ólíka miðla í sinni listsköpun, málverk, innsetningar, ljósmyndir og skúlptúra. Verk hennar hverfast um sjón og sjónrænar upplifanir, til dæmis litvana sjón, latt auga, synþesu og skyggnigáfu. Viðfangsefni og hugmyndir hennar hvíla á þeim leyndardómi sem snýr að dulrænum, líffræðilegum, andlegum og líkamlegum skynvíddarhring manns og náttúru.

„Áhugasvið og áhrifaþættir listsköpunar minnar liggja í því að kanna hvernig maðurinn tengist, líkist og líkir eftir náttúrunni bæði meðvitað og ómeðvitað. Hvernig óræðar tengingar og bönd myndast á milli manns og náttúru og hvernig náttúruöflum knýja hvoru tveggja áfram. Með myndlist minni leitast ég við að draga fram ákveðna þætti sem mynda orsakasamband og samruna á milli hins sýnilega og ósýnilega. Ég geri tilraun til að fanga ákveðin augnablik og hluti í umhverfinu með linsum augnanna og myndavélanna.“

Opnun: 24. mars kl. 16:00 - 19:00
Opnunartími: 25. mars - 1. apríl kl. 11:00 - 17:00