Skerpla kemur fram á hátíðinni Sequences X
Í Nýlistasafninu Laugardaginn 16.október kl.16:00

Nemendur í Skerplu koma fram á Sequences hátíðinni laugardaginn 16.október í Nýlistasafninu. Þau flytja verk við skúlptúra Guðlaugar Míu Eyþórsdóttur.
Hljóðverk nemenda kallast á við skúlptúra sem gegna hlutverki nótnaskriftar í þessu skemmtilega verki þar sem að hljóðheimar og heimur myndlistarinnar mætast.
Berglind María Tómasdóttir er leiðbeinandi Skerplu. Nánari upplýsingar um viðburðinn má finna á vefsíðu Sequences.
 

lighter.gif
 

Skerpla

Skerpla er tilraunakenndur hljóðlistahópur með aðsetur við Listaháskóla Íslands. Skerpla samanstendur af námskeiði sem stendur yfir á hverri önn við tónlistardeild IUA og Skerpla Sound Ensemble sem kemur fram í mismunandi samhengi. Berglind María Tómasdóttir, fagstjóri og prófessor við tónlistardeild Listaháskóla Íslands, leiðir bæði námskeiðið Skerplu og tónlistarhópinn Skerpla Sound Ensemble.
Nánari upplýsingar um Skerplu má finna hér.

Sequences X

Kominn tími til er yfirskrift tíundu Sequences hátíðarinnar sem haldin verður dagana 15.-24. október næstkomandi. Vísar yfirskrift hátíðarinnar í það samfélagsrými augnabliksins sem hátíðin skapar sér hverju sinni.
Á hátíðinni má finna ólík samtöl listamanna, ýmist við umhverfi sitt, sögu eða við aðra listamenn. Samtöl eru í eðli sínu mörkuð af augnablikinu og samhengi þeirra. Meðvitað og ómeðvitað fléttast inn í samtölin sá tíðarandi og ríkjandi hugmyndir í samfélaginu hverju sinni. Þar sem hugmyndir innan samfélaga eru kvikar og breytingum háðar, líkt og samfélögin sjálf, gefst kostur á að lesa í flæði tímans og þróun hinna ýmsu samfélagslegu hugmynda. Að hreyfa við viðteknum hugmyndum samfélagsins gerir okkur kleift að hreyfa við tímanum.

Hátíðin í ár skartar fjölbreyttum hópi listamanna sem eiga það sameiginlegt að vera gjafmildir á tíma sinn, hugmyndir og sköpunarkraft. Þeir eru færir um að drífa áfram verkefni og skapa aðstæður fyrir samtöl og þátttöku. Þannig verða oft til listaverk sem felast í beinum samskiptum listamannsins við tiltekið rými eða umhverfi og þau tengsl við áhorfendur sem verkið skapar. Samtal listamannsins og meðtakandans getur svo orðið að listaverki útaf fyrir sig, í formi sem lifir órætt í huga þess sem meðtekur. Verður þá til listaverk sem miðla mennskunni og hugmyndum um mannlegt ástand og frelsi.