Föstudaginn 16. feb heldur Páll Ragnar Pálsson, tónskáld, fyrirlestur í málstofu tónsmíða. Honum til fulltingis verður Sæunn Þorsteinsdóttir, sellóleikari. Í fyrirlestrinum mun Páll Ragnar fjalla um hugmyndir sínar um tónlist og tónsmíðar og nota verkin Quake og Afterquake sem sýnidæmi.

Fyrirlesturinn verður í stofu 633 í Skipholti 31 og er öllum opinn.

Páll Ragnar Pálsson (1977) er með doktorsgráðu í tónsmíðum frá Eistnesku tónlistarakademíunni í Tallinn. Í doktorsritgerð sinni rannsakaði hann laglínur í Kvæðabók sr. Ólafs á Söndum og greindi þær m.a. út frá kenningum prof. Urve Lippus um línulaga hugsun í tónlist. Tónsmíðakennari Páls Ragnars í Tallinn var Helena Tulve.

Í tónsmíðum sínum sækir Páll í austur-evrópska tónsmíðahefð. Lýsa má verkum hans sem „organísku“ línulaga umbreytingaferli með sterkum andlegum undirtón. Á sínum yngri árum spilaði Páll með rokkhljómsveitinni Maus. Þangað má að vissu leyti rekja hugmyndir Páls um hljóð í tónsmíðum sinum í dag. Tónsmíðar Páls Ragnars hafa verið fluttar m.a. í Elb-fílharmóníunni í Hamborg og Walt Disney tónlistarhöllinni í Los Angeles þar sem sellókonsertinn Quake var frumfluttur af Sæunni Þorsteinsdóttur og LA Philharmonic. Fyrir sömu hátíð útsetti Páll tónlist Sigur Rósar fyrir sinfóníuhljómsveit. Fiðlukonsert Páls Nostalgia fékk verðlaun sem tónverk ársins á Íslensku Tónlistarverðlaununum árið 2013. Samnefnd plata kom út sumarið 2017 hjá Smekkleysu. Páll Ragnar kennir tónsmíðar við Listaháskólann og er í stjórn Tónskáldafélags Íslands.

Sæunn Þorsteinsdóttir er okkar þekktasti sellóleikari á alþjóðlega sviðinu. Sæunn býr í New York og kennir við Háskólann í Seattle í Washington fylki ásamt því sem hún ferðast um heiminn og spilar á tónleikum.