Föstudaginn 4. október kl. 13.00 mun Kristinn G. Harðarson halda opinn fyrirlestur um verk sín og vinnuaðferðir í fyrirlestrarsal Listaháskólans að Laugarnesvegi 91.

Í fyrirlestrinum mun Kristinn aðallega fjalla um tvo nokkuð andstæða póla í verkum sínum. Annars vegar eru það verk þar sem mynd og texti mynda saman eina heild, eina heildartilfinningu. Í hinum pólnum má segja að eigi sér stað raunsæ skoðun og útfærsla á umhverfi hans, hvort sem það er nærumhverfið sem er umfjöllunar-efnið þá stundina eða það sem verður á vegi hans á ferðalögum erlendis eða gönguferðum í náttúru Íslands. Reyndar er notkun hans á texta sameiginleg báðum þessum pólum og hefur gengið eins og rauður þráður gegnum stóran hluta ferils hans, enda er frásögnin allajafnan nálæg í hans tilfelli. Hann mun fjalla um vinnsluferli verka sinna og hugleiðingar ýmiss konar er liggja þar að baki og hvernig list hans tengist umhverfi hans og lífi.
Einnig verður farið í þáttöku Kristins til Sequences, en hann er heiðurslistamaður hátíðarinnar að þessu sinni. Framlag hans er aðallega í formi sýningar í Ásmundarsal og bókar sem styrkt er af Myndlistarsjóði.

Kristinn hefur komið víða við í myndlist sinni og eru aðferðir hans, form og miðlar sem hann nýtir sér mjög fjölbreytt sem og mynd- og umfjöllunarefnið.

Kristinn Guðbrandur Harðarson er fæddur í Reykjavík 1955 og stundaði þar myndlistarnám, fyrst í Myndlistarskólanum í Reykjavík en síðan Myndlista- og handíðaskólanum þar sem hann útskrifaðist úr Nýlistadeild 1977. Veturinn á eftir dvaldi hann í Hollandi við nám.
Kristinn hefur fengist við margs konar störf en þó mest og semfelldast við kennslu myndlistar og það á hinum ýmsu stigum og ýmiss konar fólki: áhugamönnum, listaháskólanemum og allt þar á milli. Kristinn var einn af stofnfélögum Suðurgötu 7 samtakanna og síðar Nýlistasafnsins. Hann hefur einnig fengist töluvert við sýningarstjórnun.
Kristinn hefur sýnt víða á ferlinum. Má þá nefna þáttöku hans í ungdómsbienalnum í París, 1982 og Mapping a city í Kunstverein Hamborg, 2003. Meðal einkasýninga eru Skjól í Kubbnum, Listaháskólanum, 2009 og Mæting, stór yfirlitssýning í Gerðarsafni árið 2012. Í október tekur hann þátt í Sequences myndlistarhátíðinni, en hann er heiðurslistamaður hátíðarinnar að þessu sinni og í lok sama mánaðar tekur hann þátt í tveimur sýningum í Georgíu, í borgunum Tiblisi og BadTumi.

Fyrirlesturinn fer fram að mestu á ensku og eru allir velkomnir. Facebook viðburður.